Viðskipti innlent

Mikil fækkun á utanlandsferðum Íslendinga

Í maí síðastliðnum ferðuðust 22.500 Íslendingar til útlanda samkvæmt tölum um brottfarir úr Leifsstöð. Er þetta fækkun um 42% frá sama mánuði fyrir ári síðan þegar 38.500 Íslendingar lögðu land undir fót.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ferðalögum Íslendinga til útlanda hefur nú fækkað samfellt undanfarna 12 mánuði en mjög herti á samdrættinum í kjölfar bankahrunsins og falls krónunnar síðastliðið haust. Allt frá október í fyrra hafa utanlandsferðir Íslendinga verið um það bil helmingi færri en árið á undan.

Ekki er óeðlilegt að ferðalög til útlanda dragist saman þegar skóinn kreppir, enda meðal hagsveiflutengdustu útgjalda heimilanna. Þá er raungengi krónunnar nú nálægt sögulegu lágmarki sem segir þá sögu að kaupmáttur Íslendinga í útlöndum hefur sjaldan verið minni en nú sem hvetur síst til ferðalaga.

Ferðir landsmanna hafa nú dregist stórlega saman frá því þegar mest var sumarið 2007. Í júlí 2007 voru brottfarir Íslendinga um Leifsstöð 55 þúsund talsins og hafa þá aldrei verið fleiri enda voru væntingar Íslendinga um efnahagsástandið og horfurnar framundan þá í sögulegu hámarki og útlitið var bjart.

Í könnun sem Capacent Callup gerði meðal neytenda í mars síðastliðnum kom í ljós að aldrei hafi jafn fáir hugað að utanlandsferðum og fyrstu mánuði ársins en vísitalan Capacent Gallup fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir sem mæld er ársfjórðungslega var tæplega 40% lægri en á sama tíma fyrir ári síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×