Erlent

Japanir gera eldflaugatilraunir

Yukio Hatoyama, forsætisráðherra Japans. Mynd/AP
Yukio Hatoyama, forsætisráðherra Japans. Mynd/AP
Japanar sýndu í dag að þeir eru fullfærir um að skjóta niður eldflaugar sem skotið yrði á land þeirra frá Norður-Kóreu. Japanskt herskip notaði í dag nýja tegund af loftvarnaeldflaugum til þess að skjóta niður bandaríska kjarnorkuflaug, sem að sjálfsögðu var ekki með neinn kjarnaodd. Loftvarnaflaugin virkaði fullkomlega.

Hönnun hennar of smíði hófst strax eftir að Norður-Kórea skaut langdrægri eldflaug yfir Norðurhluta Japans árið 1998. Tæknin er aðallega frá Bandaríkjunum.

Í tilrauninni í dag var skotið bandarískri kjarnorkuflaug frá Kauai sem er ein af Hawaii eyjunum. Japanskur tundurspillir fylgdist með flauginni í ratsjá og skaut hana niður þegar hún náði 160 kílómetra hæð yfir Kyrrahafi.

Loftvarnaeldflaugin kallast SM-3 og er ætluð til þess að skjóta niður eldflaugar þegar þær eru komnar miðja vegu að skotmarki sínu.

Bandaríkjamenn eru einnig að hanna loftvarnaflaugarflaugar til að skjóta niður árásarflaugar nánast strax og þeim er skotið á loft og rétt áður en þeir lenda. Það verður síðasti skjöldurinn.

Tilvera þessara flauga kann að vera ein skýringin á því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ákvað að hætta við að setja upp kerfi tíu loftvarnaeldflauga í Austur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×