Viðskipti innlent

Lífsýnasafnið ekki til sölu

Úr húsakynnum ÍE. Fjölmargir hafa áhyggjur af afdrifum verðmæts lífsýnabanka Íslenskrar erfðagreiningar. Í honum eru gögn þrjú hundruð þúsund einstaklinga.Fréttablaðið/Vilhelm
Úr húsakynnum ÍE. Fjölmargir hafa áhyggjur af afdrifum verðmæts lífsýnabanka Íslenskrar erfðagreiningar. Í honum eru gögn þrjú hundruð þúsund einstaklinga.Fréttablaðið/Vilhelm

Saga Investments býður 1,7 milljarða króna fyrir Íslenska erfðagreiningu. Erlendir fjölmiðlar segja DeCode hafa runnið út á tíma. Þeir hafa áhyggjur af lífsýnabanka Íslenskrar erfðagreiningar.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar hafa birt fréttir um greiðslustöðvun DeCode, sem lögð var fram í Delaware í Bandaríkjunum á þriðjudag. Þeir eru sammála um að sala á genaprófum hafi ekki staðist væntingar, handbært fé fyrirtækisins brunnið upp og það lent í greiðsluerfiðleikum.

Á sama tíma og greiðslustöðvun deCode var lögð fram gerði fjárfestingarfélagið Saga Investments bindandi tilboð í reksturinn. Tilboðið hljóðar upp á fjórtán milljónir dala, jafnvirði 1,7 milljarða íslenskra króna. Þar af er ellefu milljónum ætlað að duga á greiðslustöðvunartíma DeCode sem endar í janúar, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Nokkrir netmiðlar sögðu í gær kaupin tímabundna lausn. Hætt væri við að félagið færi á hliðina innan nokkurra ára, rættist ekki úr áætlunum.

Breska dagblaðið Times varaði við því að nýir eigendur fyrirtækisins kynnu með kaupunum að komast yfir dýrmætan lífsýnabanka Íslenskrar erfðagreiningar og gætu nýtt hann með öðrum hætti en upphaflega hefði staðið til. Í safni Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) eru lífsýni 140 þúsund Íslendinga. Álíka mikið af gögnum er frá erlendum einstaklingum.

Persónuvernd hefur lýst yfir áhyggjum af afdrifum safnsins.

Kári Stefánsson, forstjóri DeCode, segir í samtali við Fréttablaðið ÍE eiga lífsýnabankann og lúti hann afar ströngum skilyrðum Persónuverndar og fleiri eftirlitsaðila. Ekki komi til greina að skilja hann frá félaginu. Sé það stefnan verði ekkert úr sölunni á Íslenskri erfðagreiningu.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×