Viðskipti innlent

Gistinóttum fjölgar á milli ára

Grafið er tekið af heimasíðu Hagstofunnar.
Grafið er tekið af heimasíðu Hagstofunnar.

Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 77.300 og jukust um tæplega 2 prósent frá nóvember 2007 þegar gistinætur voru 76.000. Í frétt á vef Hagstofunnar segir að hlutfallslega hafi mesta fjölgunin verið á Suðurl- og Austurlandi eða um 30 prósent miðað við nóvember 2007. Gistinóttum á Suðurlandi fjölgaði úr 5.700 í 7.400 og á Austurlandi úr 1.100 í 1.500.

Gistinóttum fjölgaði einnig um tæp 2 prósent á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 5.600 í 5.700. Á höfuðborgarsvæðinu varð hinsvegar lítil breyting og fækkaði gistinóttum úr 60.100 í nóvember 2007 í 59.700 í nóvember 2008.

Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum í nóvember um 12% á milli ára eða úr 3.400 í 3.000.

Ef litið er til gistinátta á hótelum fyrstu ellefu mánuði ársins voru 1.276.910 en voru 1.257.082 á sama tímabili árið 2007. Fjölgun varð á Suðurlandi um 13 prósent og á Austurlandi um 7 prósent milli ára. Annarsstaðar er svipuð staða og í fyrra eða örlítil fækkun að því er fram kemur hjá Hagstofunni.

Íslendingar hafa örlítið sótt í sig veðrið þegar kemur að hótelgistingum en í þeim hópi er fjölgun upp á tæpt prósent fyrstu ellefu mánuði ársins miðað við sama tímabil árið 2007. Gistinóttum útlendinga fjölgar um rúm 2 prósent milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×