Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri hótar lögmönnum vegna eiganda aflandsfélaga

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Ríkisskattstjóri hefur hótað tug lögmanna málssókn veiti þeir ekki upplýsingar um hverjir eru raunverulegir eigendur aflandsfélaga sem þeir stofnuðu fyrir viðskiptavini sína í skattaparadísum.

Ríkisskattstjóri hefur undanfarið unnið að því að greina eignarhald á íslenskum fyrirtækjum og tengsl íslenskra aðila, einstaklinga sem fyrirtækja, við erlend félög í skattaskjólum. Um 400 félög hafa verið til skoðunar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stofnuðu íslensku bankarnir um 250 aflandsfélög. Íslensku bankarnir í Lúxemborg og lögmenn stofnuðu hin 150 sem eru til skoðunar. Ríkisskattstjóri hefur að undanförnu sent fyrirspurnir bæði til banka og lögmanna um hverjir séu raunverulegir eigendur félaganna. Nokkuð hefur borið á því að lögmenn neita að svara og bera fyrir sig trúnaðarskyldu við umbjóðendur sína.

Þá hafa bankarnir einnig neitað að gefa upplýsingar á þeirri forsendu að þær liggi í Lúxemborg og því ekki aðgengilegar. Margt bendir þó til að bankarnir hér á landi búi í reynd yfir þessum upplýsingum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Ríkisskattstjóri nú sent ítrekunarbréf til tug lögmannanna þar sem hnekkt er á nýju ákvæði í skattalögum um að lögaðilum beri að veita upplýsingar um erlend dótturfélög sín. Geri þeir það ekki muni þeir eiga á hættu að Ríkisskattstjóri höfði mál gegn þeim.

Nokkrir lögmenn munu í kjölfarið hafa veitt upplýsingarnar en enn eru nokkrir sem hafa ekki orðið við því.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×