Innlent

Aftansöngur í Grafarvogskirkju frá Ástralíu til Skotlands

Vigfús Þór Árnason ætlar að rifja upp söguna um Palla sem var einn í heiminum.
Vigfús Þór Árnason ætlar að rifja upp söguna um Palla sem var einn í heiminum.

Íslenskir læknar í Skotlandi og íslenskur organisti í Sidney í Ástralíu virðast í fljótu bragði eiga fátt sameiginlegt. Að sögn séra Vigfúsar Þórs Árnasonar eiga þeir eitt sameiginlegt; að horfa á aftansöng í Grafavogskirkju á aðfangadag.

Stöð 2, Vísir.is og Bylgjan útvarpa aftansöngnum frá Grafarvogskirkju sem hefst klukkan sex á aðfangadagskvöld.

„Það skemmtilegasta af öllu var áttræður Íslendingur í Ástralíu sem hefur verið organisti þar í landi í fimmtíu ár, og finnst það vera ein af stóru stundunum að fá íslenska messu heim til sín," segir séra Vigfús en hann hefur einnig fengið þakklæti frá íslenskum læknum í Skotlandi sem vörpuðu aftansöngnum upp á vegg með myndvarpa síðustu jól.

„Þar sátu þeir og fylgdust með," segir Vigfús sem telur hefðina vera sterka og ómissandi fyrir fjölda Íslendinga sem eru búsettir erlendis.

Hann segist hafa fengið skeyti frá flestum heimshornum frá ánægðum Íslendingum sem fengu að hlýða á aftansöng þrátt fyrir fjarlægðina við Ísland.

Í ávarpi sínu á morgun mun Vigfús rifja upp söguna af Palla sem var einn í heiminum.

„Ég ætla nú ekki að tala mikið um kreppuna en það er mikilvægt að minna á að það dýrmætasta sem fólk á eru þeirra nánustu," segir Vigfús og bendir á að Palli hafi fengið allt sem hann vildi en hann gat ekki deilt því með ástvinum.

Þá mun Egill Ólafsson, tónlistarmaður syngja, auk þess sem tveir kórar við kirkjuna flytja sálma. Útsending hefst á Stöð 2, eins og fyrr segir, klukkan sex annað kvöld. Einnig er hægt er að horfa á aftansönginn í gegnum Vísi auk þess sem Bylgjan útvarpar honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×