Skoðun

Jafnvægi og takmörk

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur ríkisstjórn Íslands lagt fram lög um stjórnlagaþing sem hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið. Það er eðlilegt að taka mið af stjórnarskrám annarra landa við samningu nýrrar stjórnarskrár.

Eitt atriði sem oft er bent á er að þrískipting valdsins sem er aðalatriði í mörgum stjórnarskrám hafi skort á Íslandi og það hafi að einhverju leyti leitt til hrunsins. Í stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1789 er gert ráð fyrir þrískiptingu valdsins í framkvæmdavald sem er falið forsetanum, löggjafarvald sem þingið ræður og dómsvald sem dómskerfið fer með og hægt er að áfrýja allt til hæstaréttar. Það voru gildar ástæður fyrir þessari þrískiptingu. Þeir sem sömdu stjórnarskrána höfðu búið við ofríki konungs sem ríkti með hervaldi og beitti þingi og dómurum til að kúga nýlendur sínar. Þeir vantreystu valdinu og vildu ekki aðeins deila því niður því heldur voru þeir staðráðnir í að ganga þannig frá málunum að engin grein valdsins gæti ríkt yfir annarri og í ákvörðunum í öllum málum væru innbyggð takmörk og jafnvægi (checks and balances, á ensku) milli valda þriggja.

Það má halda að kerfi þar sem jafnvægi og takmörk eru tryggð í öllum málum sé seinvirkt og óskilvirkt. En það er yfirleitt aðeins tilfellið meðan kerfið er að venjast. Von bráðar vita handhafar hvers valds nákvæmlega hvar takmörk valds þeirra liggja og hvers jafnvægis þeir verða að gæta. Þegar takmörkin eru skýr þá er sjaldnar farið of langt og þegar jafnvægis er gætt þá er yfirleitt lítil óánægja með ákvarðanatökuna. Þrískipting valdsins er ekki háð því hvort forseti skipar stjórn eins og í Bandaríkjunum eða hvort þing kjósi forsætisráðherra eins og í þingræði sem við höfum á Íslandi.

Hins vegar krefst góð þrískipting valdsins þess að forsætisráðherra og stjórn sitji ekki á þingi. Það eru mjög greinileg ákvæði um þetta í bandarísku stjórnarskránni og reynsla Íslendinga sýnir að framkvæmdavaldið getur auðveldlega borið löggjafarvaldið ofurliði. Þess er óskandi að íslenskt stjórnlagaþing nái að skrifa nýja stjórnarskrá þar sem þrískipting valdsins er tryggð og jafnvægi og takmörk byggð inn í alla beitingu á hinu þrískipta valdi. Hin nýja stjórnarskrá gæti orðið til fyrirmyndar um mannréttindaákvæði, ákvæði um löghelgi persónulegra upplýsinga sem ná líka til líffræðilegra og erfðafræðilegra upplýsinga og ákvæði um upplýsingaskyldu stjórnvalda á tölvuöld. Endalega skiptir mestu máli hvernig hin nýja stórnarskrá virkar í framkvæmd.

Það sem ef til vill skiptir mestu í samfélaginu er hvort lýðræði er ástundað á öllum stigum samfélagsins og hvort nemendum séu kenndar lýðræðislegar aðferðir á öllum þrepum skólakerfisins. Íslendingar hafa talið sig búa við lýðræðislegar hefðir en reynsla undarfarins árs bendir til þess að lýðræðisþróun samfélagsins hafi ekki verið jafn mikil og við töldum. Lýðræði með jafnvægi og takmörkunum býður upp að samkomulag um mörg mál og þau mál sem þarf að greiða atkvæði um eru oftast í minnihluta.

Höfundur er prófessor.




Skoðun

Sjá meira


×