Erlent

Obama var ekki skemmt við Nóbelinn

Óli Tynes skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.

Sú forundran sem fylgdi því að Barack Obama skyldi hljóta friðarverðlaun Nóbels varð til þess að norska Nóbelnefndin greip til þess óvenjulega ráðs að halda sérstakan blaðamannafund til þess að réttlæta gjörninginn.

Fjórir af fimm nefndarmönnum sögðu að valið hefði bæði verið einróma og verðskuldað. Thorbjörn Jagland formaður nefndarinnar tiltók að Obama hefði lagt sig fram um að bæta samskipti Vesturlanda við múslima.

Auk þess hefði hann hætt við að koma upp loftvarnaeldflaugum í Evrópu. Þetta gerði heiminn kannski ekki öruggari, en hefði minnkað spennuna.

Fimmti nefndarmaðurinn Inger-Marie Ytterhorn sagði hinsvegar að líkamstjáning forsetans hefði sagt sitt þegar hann talaði um veitinguna í Rósagarði Hvíta hússins.

-Ég horfði á andlit hans í sjónvarpinu þegar hann staðfesti að hann myndi þiggja verðlaunin og koma til Noregs til að veita þeim viðtöku. Hann var ekki sérlega glaður að sjá.

Hún sagði að hætta væri á því að verðlaunin reyndust honum fjötur um fót.

Barack Obama hafí setið á forsetastóli í tólf daga þegar frestur til að tilnefna friðarverðlaunahafann rann út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×