Erlent

Biðja farþega að létta á sér fyrir flug

Óli Tynes skrifar

Japanska flugfélagið All Nippon Airways ætlar að setja upp eitthundrað afskermuð klósett við alla útganga sína á flugvöllum til þess að farþegarnir geti létt á sér áður en þeir ganga um borð. Með þessu hyggst flugfélagið spara eldsneyti.

Flugvélar eru þeirri náttúru gæddar að því þyngri sem þær eru þeim mun meira eldsneyti eyða þær.

All Nippon telur því eðlilega að með því að fá nokkur hundruð manns til að tæma sig innvortis áður en lagt er af stað megi spara talsvert eldsneyti.

Japanska sjónvarpsstöðin NHK segir að með eldsneytissparnaði sem af þessu leiðir vonist flugfélagið til að minnka CO2 útblástur úr hreyflum flugvéla sinna um fimm tonn á mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×