Viðskipti innlent

Viðskiptaráðherra leiðréttir Davíð Oddsson

Vegna ummæla formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands um stjórn Fjármálaeftirlitsins, í bréfi sínu til forsætisráðherra 8. febrúar 2009, vill viðskiptaráðuneytið taka eftirfarandi fram:

"Staðgengill forstjóra Fjármálaeftirlitsins tók við daglegri stjórn eftirlitsins eftir að gengið hafði verið frá starfslokum við fyrrverandi forstjóra þess. Því varð dagleg starfsemi eftirlitsins ekki fyrir skaða vegna starfslokanna.

Þá er rétt að taka fram að viðskiptaráðherra skipaði nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins þann 5. febrúar sl. Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitinu urðu ekki tafir á afgreiðslu mála vegna þessa."

Í bréfinu sem Davíð Oddsson sendi forsætisráðherra í gær sagði hann meðal annars:

„Fyrir fáeinum vikum urðu mönnum á stjórnsýsluleg afglöp, þegar brotthlaupinn ráðherra skildi Fjármálaeftirlitið eftir stjórnlaust, bæði hvað framkvæmdastjórn og yfirstjórn varðaði, á viðkvæmasta tíma í íslenskri fjármálasögu. Af því hefur hlotist verulegur skaði. Ábyrgð ráðherra er mikil á því að mál gangi ekki fram með slíkum hætti. Á tímum sem þessum er nauðsynlegra en nokkru sinni að festa og samfella sé í stjórn mikilvægustu stofnana.“












Fleiri fréttir

Sjá meira


×