Viðskipti innlent

Mjótt á mununum í stjórnarkjöri Byrs

Frá aðalfundi Byrs í dag.
Frá aðalfundi Byrs í dag.

Nú fyrir stundu lauk kosningu til stjórnar á aðalfundi Byr sparisjóðs á Nordica-Hilton hótelinu en um 800 stofnfjáreigendur voru mættir á fundinn. Í framboði voru tveir listar. Annarsvegar var það A listinn sem leiddur var af Sveini Margeirssyni og Herði Arnarssyni en hann er talinn vera fulltrúi grasrótarinnar í stofnfjárhópnum. Hinsvegar var það B listinn sem leiddur var af Jóni KR. Sólnes og talinn fulltrúi þeirra sem farið hafa með völdin í Byr.

Mjótt var á mununum en B listinn fékk 48% greiddra atkvæða gegn 46% A listans. Þetta þýðir að B listinn fær þrjá menn í stjórn en A listinn einungis tvo.

Þetta þýðir að þeir sem farið hafa með völdin í BYR halda velli en mikil átök hafa verið innan sparisjóðsins sem endurspeglaðist í miklum átökum á fundinum sem hófst klukkan 16:00 í dag.

Það verða því þeir Jón Kr. Sólnes, Guðmundur Geir Gunnarsson og Matthías Björnsson sem verða í stjórn fyrir B listann og þeir Sveinn Margeirsson og Arnar Bjarnason fyrir A listann, en Arnar hefur verið nokkuð í fréttum undanfarið í tengslum við félag sitt Reykjavík Invest.

Í varastjórn voru kjörnir þeir Þorsteinn Ólafur Þorsteinsson fá B lista og Stefán Franklín fyrir A lista.

Í fréttatilkynningu frá Byr sem barst í kvöld segir að á fundinum hafi spunnist miklar umræður um hrun íslenska fjármálakerfisins sl. haust og afkomu Byrs á síðasta ári. Fram kom í ræðu Ragnars Z. Guðjónssonar sparisjóðsstjóra að rekstraráætlun Byrs fyrir árið 2009 geri ráð fyrir jákvæðri afkomu og að þrátt fyrir ágjöfina ætti Byr mikla möguleika til að ná fyrri styrk á næstu árum.  Hann sagði m.a.:

„Forsenda endurreisnar íslensks efnahagslífs er tilvist sjálfstæðra fjármálastofnana sem geta stutt við heimilin og fyrirtækin í landinu. Forsenda þess að Byr geti veitt samkeppnishæfa þjónustu og gætt hagsmuna viðskiptavina sinna, er að fyllsta jafnræðis sé gætt í öllum aðgerðum stjórnvalda við endurreisn íslensks fjármálakerfis. Virk samkeppni fjármálafyrirtækja með dreift eignarhald er forsenda þess að fjárhagur lands og þjóðar rísi á heilbrigðum grunni.“

Atkvæði í stjórnarkjöri greiddu 633 og 5,14% seðla voru auðir. Fundinn sátu fulltrúar 78% virkra atkvæða en stofnfjáreigendur í Byr sparisjóði eru 1.512 talsins.  Á fundinum var samþykkt að enginn arður yrði greiddur af stofnfé vegna síðasta árs og ekki nýtt heimild til endurmats stofnfjár samkvæmt 67. grein laga um fjármálafyrirtæki.


Tengdar fréttir

Hiti á aðalfundi Byrs - erfiðasta ár í sögu sjóðsins

Rúmlega 700 manns sitja aðalfund sparisjóðsins Byr sem hófst klukkan fjögur og stendur enn yfir. Þetta er átakafundur enda tapaði sparisjóðurinn 29 milljörðum á síðasta ári. Tveir listar eru þar að auki í framboði til stjórnar.

800 manns á aðalfundi Byrs

Góð mæting er á aðalfund Byrs sem hófst á Hilton Nordica hótelinu klukkan fjögur en um 800 manns eru mættir. Um 1500 stofnfjáreigendur eru í Byr en málefni sjóðsins hafa verið í fréttum undanfarna daga í kjölfar umdeildrar sölu skilanefndar gamla Landsbankans á 2,6 prósenta hlut í sjóðnum til Reykjavík Invest sem er í eigu Arnars Bjarnasonar en hann gefur kost á sér til stjórnarsetu á fundinum. Ekkert varð af sölunni þar sem skilanefndin féllst ekki á gjörninginn, sem þó var búið að tilkynna og taka fyrir hjá stjórn Byrs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×