Viðskipti innlent

Hiti á aðalfundi Byrs - erfiðasta ár í sögu sjóðsins

Andri Ólafsson skrifar
Rúmlega 700 manns sitja aðalfund sparisjóðsins Byr sem hófst klukkan fjögur og stendur enn yfir. Þetta er átakafundur enda tapaði sparisjóðurinn 29 milljörðum á síðasta ári. Tveir listar eru þar að auki í framboði til stjórnar.

Fulltrúar listanna tveggja sem eru í framboði til stjórnar Byrs hafa verið duglegir að hringja í þá 1500 stofnfjáreigendur sem hafa atkvæðisrétt á aðalfundinum sem fram fer á Hilton-Nordica hótelinu. A listinn er leiddur af Sveini Margeirssyni og Herði Arnarssyni en hann er talinn fulltrúi grasrótarinnar í stofnfjárhópnum en B listinn sem leiddur er af Jóni KR. Sólnes er talinn fulltrúi þeirra sem farið hafa með völdin í Byr.

Alls mættu eigendur 78% stofnfjárs sem er í Byr á fundinn. Hann hófst með skýrslu stjórnarformannsins og sparisjóðsstjórans. Stemningin var frekar þung enda ársreikningurinn svartur, 29 milljarða tap og erfiðasta ár í sögu sparisjóðsins að baki.

Eiginfjárhlutfallið rétt lafir fyrir ofan löglegt lágmark og sparisjóðurinn á undanþágum frá lánadrottnum. Stofnfjáreigendur voru ekki sáttir.

Einn þeirra steig í pontu og sagði það sorglegt að sparisjóðsstjórinn hefði tapað einum milljarði fyrir hverja milljón sem hann þáði í laun á síðasta ári.

Annar spurði hvernig á því stæði að 10 einstaklingar væru ábyrgir fyrir 75% af öllum afskrifuðum útlánum sparisjóðsins. Það gera um 18 milljarða króna. Hann vildi jafnframt fá að vita hvaða einstaklingar þetta væru. En fékk engin svör frá stjórninni sem bar við bankaleynd..

Fundurinn stendur enn yfir og brátt verður gegnið til stjórnarkjörs en úrslit munu ekki liggja fyrir fyrr en síðar í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×