Hinn litríki Gilbert Arenas hjá Washington Wizards í NBA deildinni stefnir á enn eina endurkomuna eftir meiðsli á laugardaginn kemur.
Þessi mikli skorari hefur enn ekki komið við sögu hjá liðinu á leiktíðinni sem er langt komin og hann spilaði aðeins 13 leiki með liðinu í fyrra. Hann hefur gengist undir þrjá uppskurði á hné á síðustu 18 mánuðum.
Washington hefur því ekki fengið mikið fyrir peninginn sem það fjárfesti í Arenas, sem skrifaði undir sex ára samning síðasta sumar þrátt fyrir meiðslin - samning sem færir honum tæpa 13 milljarða króna í laun á núverandi gengi.
Arenas var síðast í fullu fjöri með Washington leiktíðina 2006-07 en þá skoraði hann rúm 28 stig að meðaltali í leik með liðinu.