Erlent

Ron Howard hvetur Vatíkansmenn til að sjá Engla og djöfla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ron Howard. Péturskirkjan í baksýn.
Ron Howard. Péturskirkjan í baksýn.

Leikstjórinn Ron Howard hvetur embættismenn Vatíkansins til að sjá kvikmyndina Englar og djöflar áður en þeir gagnrýna hana.

Þarna er um að ræða annað stykki úr smiðju Dan Brown en margir minnast bókarinnar og kvikmyndarinnar Da Vinci-lykillinn sem olli slíkum úlfaþyt, hvort tveggja innan Vatíkansins sem kaþólsku hreyfingarinnar Opus Dei, að menn muna varla annað eins.

Ron Howard leikstýrir Englum og djöflum og kann þeim Vatíkansmönnum litlar þakkir. Ekki var nóg með að honum væri þverneitað um aðgang að kaþólskum kirkjum til að kvikmynda hluta verksins heldur sakar hann Vatíkanið einnig um að hafa kippt í alla spotta sem það náði til í þeim tilgangi að komið yrði einnig í veg fyrir myndatökur í nágrenni kirknanna.

Vatíkanið neitar að segja orð við fjölmiðla um myndina eða efni hennar en að lokum tókst ítölskum blöðum að ná þeim athugasemdum upp úr 102 ára gömlum ítölskum biskupi að myndin væri ákaflega niðurlægjandi og neikvæð í garð kirkjulegra gilda og mikil ófrægingarherferð fyrir kirkjuna.

Howard gerir sem minnst úr þessu og bendir hæverkslega á að enginn þeirra, sem fram að þessu hefur hellt úr skálum reiði sinnar yfir hann sjálfan, myndina og rithöfundinn Dan Brown, hafi séð myndina. Brown hefur sjálfur boðað nýja skáldsögu með haustinu en er þögull sem gröfin um efni hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×