Viðskipti innlent

Mikill áhugi á ríkisvíxlum

Áhugi fjárfesta á fjögurra mánaða ríkisvíxlum í útboði í morgun var nokkuð meiri en í fyrri útboðum ársins. Alls bárust tilboð að fjárhæð 66,5 milljarðar króna en það sem af er ári hafa borist tilboð á bilinu 50 til 60 milljarðar króna, fyrir utan útboð í febrúar sem nam 23 milljörðum og í júní þegar eftirspurnin nam 17 milljörðum króna. Tilboðum var tekið fyrir 40 milljarða sem er ríflega tvöfalt meira en verið hefur að jafnaði á árinu.

Meðalávöxtunarkrafa í útboðinu var 6,93% sem jafngildir meðalverðinu 97,67. Krafan hefur þannig tekið að hækka lítillega á ný eftir fremur stórt stökk niður á við í maí þegar hún fór úr 11,86% í 5,74%.

Að vísu eru þessar tölur ekki fyllilega samanburðarhæfar þar sem sú fyrri er ávöxtunarkrafa á þriggja mánaða víxli en sú síðari á fjögurra mánaða víxli.

Hækkun kröfunnar bendir til þess að markaðsaðilar búist við hægari lækkun vaxtastigs í landinu en talið hefur verið fram til þessa. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×