Skoðun

Pistill: Nöfnin á eigendum bankana strax upp á borðið

Friðrik Indriðason skrifar
Það er með öllu óskiljanlegt að nöfnin á hinum nýjum erlendu eigendum Íslandsbanka og Nýja Kaupþings skuli ekki gerð opinber. Það hlýtur að vera krafa allra innistæðueigenda í þessum tveimur bönkum og viðskiptavina að þessi nöfn verði sett upp á borðið strax.

Mikið var gengið á ráðherra á blaðamannafundi í morgun um að gefa upp hvaða stórbankar þetta væru sem orðnir eru eigendur bankana tveggja en án árangurs. Því var borið við kröfulýsingarfrestur væri ekki liðinn.

Halda Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að þjóðin sé hópur af bjánum. Eða er það virkilega svo að samkomulagið sem liggur fyrir sé gert án þess að allar kröfur liggi fyrir. Er þá enn eitt allsherjarklúðrið í sambandi við endurreisn Íslands í uppsiglingu?

Hafi samkomulagið sem kynnt var í morgun verið gert án þess að allar kröfur í þrotabú Glitnis og Kaupþings liggi fyrir er um marklausan gerning að ræða. Og ef allar kröfur liggja fyrir, eða a.m.k. yfir 90% þeirra, er ekkert því til fyrirstöðu að gefa upp nöfn eigenda Íslandsbanka og Nýja Kaupþings. Þetta er skýrt og klárt.

Það er lítið hald í þeim orðum Jóhönnu og Steingríms að kröfuhafarnir séu alþjóðlegir stórbankar en ekki vogunarsjóðir eins og haldið hefur verið fram. Og þó þetta séu stórbankar eiga innistæðueigendur og viðskiptavinir Íslandsbanka og Nýja Kaupþings skýlausan rétt á því að vita hverjum þeim eru að treysta fyrir sparifé sínu og viðskiptum.

Það er algert lykilatriði að hver og einn sem á eitthvað inni hjá Íslandsbanka eða Nýja Kaupþingi geti tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort hann vilji hafa þann hátt á áfram eða færa viðskipti sín annað.

Og bæta má við að þetta er enn eitt dæmið um að stefna núverandi ríkisstjórnar um gegnsæi og opna stjórnsýslu er að verða meiri og meiri brandari eftir því sem líður á stjórnarsamstarfið. Það versta er að almenningur er fyrir löngu hættur að brosa þegar hann heyrir þennan brandara eina ferðina enn.

Viðbót: Sá flötur er einnig á málinu að ráðherrarnir hafi kveðið of fast að orði og þetta sé samkomulag sem kröfuhöfunum stendur til boða en ekki samkomulag sem þeir hafi gengið að. Þá kæmi upp að í raun viti skilanefndirnar ekki nákvæmlega hverjir hinir endanlegu kröfuhafar kunni að verða og það kemur ekki í ljós fyrr en eftir sex mánuði.

Þá var ekki hægt að fullyrða á fundinum í morgun að um væri að ræða alþjóðlega stórbanka þar sem ekki liggur fyrir hvort þeir verði í hópnum eftir sex mánuði eða ekki.

Vitað er að skuldabréf bankana, það er Glitnis og Kaupþings, hafa gengið kaupum og sölum í allan vetur eftir að uppboð var haldið á þeim eftir bankahrunið til að finna út hvað þeir sem seldu skuldatryggingar á þau ættu að borga kaupendum slíkra trygginga.

Allavega eru bankarnir þá á meðan í eigu skilanefndana og engin ástæða fyrir almenning að pæla í hverjir muni eignast þá fyrr en um næstu jól.












Skoðun

Sjá meira


×