Innlent

Fleiri slasast alvarlega í umferðinni

Viðstöddum voru allir ánægðir með samninginn. Samgönguráðherra óskaði aðilunum til hamingju með áfangann og sagði hann ánægjulegan. Fundurinn var haldinn hjá tjónaskoðun VÍS.
fréttablaðið/pjetur
Viðstöddum voru allir ánægðir með samninginn. Samgönguráðherra óskaði aðilunum til hamingju með áfangann og sagði hann ánægjulegan. Fundurinn var haldinn hjá tjónaskoðun VÍS. fréttablaðið/pjetur

Alvarlega slösuðum í umferðarslysum hefur fjölgað töluvert á undanförnum árum. Þannig slösuðust 200 alvarlega í umferðinni í fyrra en aðeins 115 árið 2004. Hins vegar hefur látnum fækkað til muna og létust tólf á síðasta ári samanborið við 31 á árinu 2006. Þetta kemur fram í skýrslu um umferðaröryggisáætlun stjórnvalda árið 2008 sem var kynnt á blaðamannafundi á þriðjudag. Eitt af markmiðum áætlunarinnar er að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um fimm prósent á ári. Það hefur ekki tekist.

„Sjö hafa látist það sem af er þessu ári og er það lítið miðað við árstíma,“ sagði Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu.

Á árinu 2008 var lögð mikil áhersla á lækkun hraða á vegum landsins og var unnið að því með auknu eftirliti lögreglu, hækkun sekta, áróðri og fræðslu, að sögn Birgis. „Þessir þættir hafa greinilega skilað góðum árangri því mjög hefur dregið úr hraða á vegum landsins,“ segir Birgir. Meðalhraði á hringveginum hefur lækkað úr 96,6 kílómetrum á klukkustund í 93,2 kílómetra á klukkustund.

Einnig var umferðareftirliti hrint í framkvæmd vorið 2008. Gefnar voru út 2.805 kærur vegna hraðaksturs. Hraðamyndavélum var fjölgað á árinu og voru 16.125 brot skráð með þeim. Sett var af stað sérstakt eftirlit með efnaakstri og voru 111 ökumenn kærðir fyrir ölvun við akstur og 39 fyrir fíkniefnaakstur á tveggja mánaða tímabili. Undirritun samnings um kaup á búnaði til bíltæknirannsókna var kynnt á fundinum. Lögreglustjórinn á Selfossi, Umferðarstofa, samgönguráðherra og dómsmálaráðherra undirrituðu hann en kaupin nema um sex milljónum króna.

Bíltæknirannsóknir eru rannsóknir á ökutækjum eftir bílslys. „Þó að bilanir séu ekki stærsti þátturinn í bílslysum er mikilvægt að rannsaka þær,“ sagði Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa (RNU), Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra sagði að markmið samningsins væri að lækka þann toll sem umferðarslys tækju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×