Erlent

Óttast um tugi manna

Vatn flæddi inn í vélarklefa eftir að sprenging varð í tækjabúnaði.fréttablaðið/AP
Vatn flæddi inn í vélarklefa eftir að sprenging varð í tækjabúnaði.fréttablaðið/AP

Óttast er um tugi manna eftir að slys varð í stærstu vatnsaflsvirkjun Rússlands í gær. Staðfest var að tíu væru látnir, en allt að 65 að auki var saknað. Fjórtán slasaðir voru fluttir á sjúkrahús.

Sprenging varð í spennubreyti í virkjuninni Sayano-Shushinskaja í sunnanverðri Síberíu, með þeim afleiðingum að veggir og loft vélar­klefa virkjunarinnar eyðilögðust þannig að vatn flæddi inn.

Engar skemmdir urðu á stíflu virkjunarinnar, sem er um það bil eins kílómetra löng, en hins vegar lak olía út í ána Jeniseí og barst niður með ánni. Tvær af tíu túrbínum virkjunarinnar eyðilögðust og sú þriðja er mikið skemmd.

„Við erum sennilega að tala um að það taki nokkur ár frekar en nokkra mánuði að koma þremur af tíu túrbínum í samt lag aftur,“ sagði Sergei Shoigu, almannavarnaráðherra rússnesku stjórnar­innar.

Rafmagn fór af um helmingi húsa í Abakan, höfuðborg Kakassíu­héraðs þar sem virkjunin er. Íbúar þar eru um 160 þúsund. Ekki var ljóst í gær hve margir íbúar í Síberíu urðu fyrir tjóni af völdum slyssins, en virkjunin útvegar tíu prósentum íbúa þar rafmagn.

Álver rússneska álrisans Rusal gátu þó haldið áfram starfsemi sinni með rafmagni sem fengið var annars staðar frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×