Viðskipti innlent

Makaskipti áfram áberandi á íbúðamarkaðinum

Lítil velta og aukin tíðni makaskiptasamninga einkenna nú íbúðamarkaðinn sem hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum. Alls voru gerðir 265 kaupsamningar um íbúðahúsnæði í maí mánuði síðastliðnum og var rúmlega þriðjungur þeirra viðskipta afgreiddur með makaskiptasamningum samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands.

Með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að makaskiptasamningar eru mun algengari í viðskiptum með íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en tæplega helmingur allra fasteignaviðskipta í maí var afgreiddur með makaskiptum. Á landsbyggðinni var 13% allra viðskipta afgreiddur með þeim hætti.

Til samanburðar þá voru makaskiptasamningar að meðaltali innan við 2% af öllum fasteignaviðskiptum sem gerð voru á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2000- 2007 en síðastliðin sumar fór makaskiptasamningum í fasteignaviðskiptum fjölgandi samhliða því sem umsvif drógust saman á fasteignamarkaði og framboð lánsfjár til fasteignakaupa byrjaði að þrengjast.

Í kjölfar bankahrunsins í haust fjölgaði makaskiptasamningum svo stórum og þróun síðustu mánaða sýnir að makaskipti við fasteignaviðskipti virðast vera að festast í sessi í því árferði sem nú ríkir enda er það oft eina leiðin sem fær er til að skipta um húsnæði á tímum lausafjárþurrðar og kreppu.

Velta á íbúðamarkaði, í fjölda þinglýstra kaupsamninga talin, dróst sama um tæplega 30% í maí mánuði samanborið við sama tímabil fyrir ári síðan. Minnkandi umsvif voru þegar farin að einkenna íbúðamarkaðinn síðastliðið vor, en í maí í fyrra voru umsvifin á íbúðamarkaði búin að dragast saman um tæplega 70% frá fyrra ári.

Í maímánuði síðastliðnum voru samtals gerðir 162 kaupsamningar um íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en fyrir ári síðan nam þessi fjöldi 231 og í maí árið 2007 voru gerðir 898 kaupsamningar um íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×