Skoðun

Vinstri græn og tímamótin í ESB-umræðunni

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði áherslu á það í þingræðu að tillaga frá ríkisstjórninni til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (þingmál nr. 38) væri tímamótaviðburður. Ráðherrann hefur rétt fyrir sér í þessu. Tillagan markar tímamót í ýmsum skilningi. Þótt flokkur Össurar hafi lengi barist fyrir aðild Íslands að ESB hefur Samfylkingin ekki haft möguleika á að gera umsókn um aðild að stefnumáli ríkisstjórnar fyrr en nú. Þessi möguleiki hefur skyndilega opnast. Og hvernig mátti það verða?

Samfylkingin er orðin stærsti flokkur landsins, finnur vel til máttar síns og á í stjórnarsamstarfi við flokk sem kallast Vinstrihreyfingin - grænt framboð, eða Vinstri grænir til hægðarauka og gerir út á það að grasrótarbragð finnist af nafni og gælunafni. Ekki skal úr því dregið að flokkurinn er vinstrisinnaður og ber umhverfismál fyrir brjósti. En í hugleiðingu minni að þessu sinni vil ég einkum benda á, að Vinstri grænir hafa markað sér með hástemmdum orðum þá stefnu að berjast gegn aðild Íslands að ESB. Þeir hafa auglýst sig sem fullveldissinna í réttum skilningi þess orðs og þóst standa stífir á meiningunni.

Upp á síðkastið hefur þó komið í ljós að skoðanafestan er laus í sér og flokkseindrægni í Evrópumálum stórlega ýkt. Vinstri grænir hafa nú gert sitt til þess að aðild Íslands að ESB er opinber stefna ríkisstjórnar sem þeir eru þátttakendur í. Miðað við fyrri orð kemur þetta úr hörðustu átt. Vinstri grænir gera sig bera að tvískinnungi. Þeir segja í sama orðinu að þeir séu harðir andstæðingar aðildar en jafnframt taka þeir undir við fólk sem vill að sótt sé um aðild til þess að fá úr því skorið, „hvað sé í boði".

Auk þess telja þeir að það „þjóni lýðræðinu" að fara í þess háttar könnunarviðræður. Látum það vera! En hingað til hafa Vinstri grænir staðið á því eins og aðrir andstæðingar aðildar, að Íslendingar geti vitað það fyrirfram, hvað í boði er, ekki síst hvað varðar pólitísk málefni, stjórnskipan og stjórnsýslu. Á því er enginn vafi að þjóðin væri að ganga í ríkjasamtök sem lúta yfirþjóðlegu valdi. Evrópusambandið hefur öll pólitísk og táknleg einkenni sambandsríkja (bandaríkja).

Evrópusambandið er „federal" (upp á ensku), „föderativ" (upp á skandinavísku) og lýtur vitaskuld lögmálum þess háttar stjórnskipulags. Erlendis fer þetta ekki leynt, en á Íslandi er varla á þetta minnst. Aðildarsinnar hér á landi taka létt á þessu grundvallaratriði, þó út yfir taki ábyrgðarleysi þeirra sem halda því beinlínis fram að fullveldisafsal, svo víðtækt og almennt sem raun ber vitni, styrki stjórnfrelsi þjóðarinnar! Sú kenning er engin spakleg þverstæða, heldur blátt áfram fjarstæða! Fullveldi er hvorki söluvara né skiptimynt. Það er algilt, en ekki afstætt.

Vinstri grænir verja með fyrirvörum, sem þó eru mestmegnis fyrirsláttur, stuðning sinn við tillöguflutning ríkisstjórnar um ESB-aðild. Samfylkingin beitti því bragði í fyrstu að telja Vinstri grænum trú um að þeir gætu staðið gegn þessu þingmáli en setið þó sem fastast í ríkisstjórn, því að varla mundi standa á framsóknarmönnum og Borgarahreyfingunni og e.t.v. þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki að styðja slíka tillögu. Össur og Jóhanna sögðu ítrekað að tillaga um aðildarumsókn hefði meirihlutastuðning á þingi. Annað hefur komið í ljós. Framsóknarmenn höfnuðu henni þegar í stað, svo að það gladdi mitt gamla hjarta, og hafa tekið upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn um að fordæma efni tillögunnar og málsmeðferð ríkisstjórnarinnar frá rótum.

Engar líkur eru til þess að tillaga ríkisstjórnarinnar um Evrópusambandsaðild verði samþykkt. Hún er fyrirfram dæmd. En í þessum ruglingslega málatilbúnaði Jóhönnu, Össurar og Steingríms stendur upp úr sem tímamótaviðburður tvískinnungur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Evrópumálum og fyrirsláttur forustumanna VG sér til afbötunar. Hvar eruð þið nú Ögmundur, Katrín og Atli?

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokks og félagi í Heimssýn.




Skoðun

Sjá meira


×