Erlent

Angela Merkel lýsti yfir sigri í kosningunum

Sigríður Mogensen skrifar
Angela Merkel hefur lýst yfir sigri í kosningunum. Mynd/AP
Angela Merkel hefur lýst yfir sigri í kosningunum. Mynd/AP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum þar í landi. Flokkur hennar, Kristilegir demókratar, geta myndað stjórn með frjálsum demókrötum ef niðurstöður verða eins og fyrsta útgönguspá gefur til kynna. Sextíu og tvær milljónir manna eru á kjörskrá í Þýskalandi en kjörstöðum hefur verið lokað.

Mikil öryggisgæsla var í landinu í dag vegna kosninganna en til að mynda var allt flug bannað yfir München. Kosningarnar fóru þó friðsamlega fram.

Samkvæmt fyrstu útgönguspám hefðu krisilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel, kanslara og frjálsir demókratar nauman meirihluta. Kristilegir demókratar með rúm 33% atkvæða og frjálsir demókratar 15 %. Sósíal demókratar fá 22% samkvæmt fyrstu spám, sem er versti árangur flokksins síðan eftir síðari heimsstyrjöld.

Angela Merkel er sögð eiga sér þá ósk heitasta að losna úr stjórnarsamstarfi við Sósíaldemókrata og mynda samsteypustjórn með frjálsum demókrötum. Virðist ósk hennar vera að rætast. Stjórnmálaspekúlantar í Þýskalandi segja Merkel ótvíræðan sigurvegara kosninganna og búast þeir við skattalækkunum ef stjórnarsamstarf kristilegra demókrata og frjálsra demókrata verður raunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×