Innlent

Kennarar skora á menntamálaráðherra

MYND/GVA

Stjórn Kennarasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á menntamálaráðherra að forgangsraða í þágu menntunar og standa vörð um þá lágmarksþjónustu sem börnum og unglingum er tryggð með núverandi lögum. „Stjórn Kennarasambands Íslands varar við hugmyndum Sambands íslenskra sveitarfélaga um áframhaldandi stórfellan niðurskurð í skólakerfinu. Á samdráttartímum er mikilvægara en nokkru sinni að standa vörð um menntun og skólastarf."

Í ályktuninni er einnig bent á að niðurskurður í menntakerfinu komi til með að bitna hart á þeim börnum og unglingum sem sækja skóla í dag. „Nýjasta hugmynd Sambands íslenskra sveitarfélag um breytingu á grunnskólalögum sem heimilar umtalsverða fækkun vikulegra kennslustunda er að mati stjórnar KÍ í senn óskynsamleg og varasöm. Niðurskurður af þessu tagi er líklegur til að standa lengi samanber samskonar ákvörðun sem tekin var árið 1992 og var ekki að fullu dregin til baka fyrr en árið 2001."

Þá er sagt líklegt að niðurskurður í menntakerfinu komi fram sem kostnaðarauki annars staðar í samfélaginu. Þannig sé ljóst að þeir sem missa vinnuna vegna sparnaðaraðgerða eigi fáa kosti aðra en lenda á atvinnuleysisbótum og eins er líklegt að þeir sem verða af sérúrræðum í æsku lendi í því síðar á skólagöngunni að þurfa á enn kostnaðarsamari úrræðum að halda. „Munum að glötuð tækifæri til menntunar í æsku verða ekki bætt upp síða á lífsleiðinni. Hver einstaklingur á sér aðeins eina æsku," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×