Viðskipti innlent

Spáir því að ársverðbólgan lækki í 11,3% í júlí

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2% í júlí. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 12,2% í 11,3%, sem er minni verðbólga en sést hefur síðan í mars 2008.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að júlí sé útsölumánuður og á greiningin von á að sumarútsölur vegi til 0,4% lækkunar á VNV. Ennfremur að áframhaldandi lækkun húsnæðisliðar vísitölunnar muni vega til 0,1% lækkunar hennar.

„Á móti þessum liðum vega áhrif af gengissigi krónu undanfarna mánuði svo og nýlegri hækkun á eldsneytisgjöldum. Þannig gerum við ráð fyrir að hækkun ferða- og flutningaliðar VNV vegi til tæplega 0,3% hækkunar hennar, fyrst og fremst vegna hækkunar á opinberum gjöldum á eldsneyti en einnig vegna verðhækkunar á bifreiðum og öðrum ökutækjum.," segir í Morgunkorninu.

„Verðhækkun mat- og drykkjarvöru mun að mati okkar hafa áhrif til tæplega 0,2% hækkunar á VNV og aðrir innflutningsdrifnir liðir hækka vísitöluna um ríflega 0,1% til viðbótar. Áhrif þeirra liða sem út af standa eru minni."

Þótt enn séu horfur á allhraðri hjöðnun verðbólgu hefur dregið nokkuð úr bjartsýni greiningarinnar á að hún verði orðin í takti við nágrannalönd Íslands þegar nýtt ár heilsar. Þó eru í raun aðeins tveir þættir sem þrýsta vísitölu neysluverðs upp á við þessa dagana; gengisfall krónu og hækkun neysluskatta.

Veiking krónunnar, og ekki síður vaxandi vantrú á að styrking hennar sé í vændum á næstunni, hefur orðið til þess að hækka verð innfluttra vara allhratt undanfarna mánuði og sér ekki fyllilega fyrir endann á þeirri verðhækkun enn.

„Það sem eftir lifir árs teljum við að VNV muni hækka um 2,3%. Spá okkar gerir ráð fyrir að 12 mánaða verðbólga mælist 5,5% í upphafi næsta árs en að VNV sé líklegri til að lækka en hækka á komandi ári. Hækkun neysluskatta, sem ekki er gert ráð fyrir hér vegna mikillar óvissu um stærðargráðu og tímasetningu, gæti þó sett hér strik í reikninginn," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×