Viðskipti innlent

Bandaríkjamenn kaupa mest

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mynd/ Valgarður.
Mynd/ Valgarður.
Skilanefnd Kaupþings neyddist til þess að óska eftir fresti til að taka endanlega ákvörðun um aðkomu kröfuhafa Kaupþings að Nýja Kaupþingi til 30. nóvember því ekki lá fyrir ársreikningur Nýja Kaupþings fyrir árið 2008 og uppgjör fyrstu níu mánaða þessa árs, að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns skilanefndar Kaupþings.

Samningar milli stjórnvalda og skilanefndarinnar, sem undirritaðir voru 3. september sl. kveða á um að í síðasta lagi 31. október 2009 liggi fyrir ákvörðun skilanefndarinnar um hvort Kaupþing eignist 87 prósent hlutafjár í Nýja Kaupþingi strax eða hvort Nýja Kaupþing verði áfram að fullu í eigu ríkisins með möguleika á því að skilanefndin eignist allt að 90 prósenta hlut í bankanum á síðari stigum.

Hinn 30. desember næstkomandi rennur kröfulýsingarfrestur hjá slitastjórn Kaupþings en fyrir þann tíma þurfa kröfuhafar bankans, eins og eigendur skuldabréfa, að lýsa kröfum sínum til að eiga möguleika á að eignast hlut í Nýja Kaupþingi.

Bankar og vogunarsjóðir



Samkvæmt upplýsingum frá þeim innlendu fyrirtækjum sem fremst hafa staðið í miðlun skuldabréfa föllnu bankanna þriggja eru það aðallega bandarísk fjármálafyrirtæki, bankar og vogunarsjóðir, sem hafa verið að kaupa skuldabréf föllnu bankanna af evrópskum fjármálafyrirtækjum.

Að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar eru um 70 - 80 prósent allra krafa á hendur Kaupþingi skuldabréf, sem nú hafa gengið kaupum og sölum. Skuldabréfamiðlarar sem fréttastofa hefur rætt við við segja að dreifing kaupenda skuldabréfanna sé nokkuð jöfn, ekki sé mikið um að einstakir kaupendur safni bréfum en bæði fulltrúar stjórnvalda og forsvarsmenn bankanna höfðu af því áhyggjur að slíkt væri raunin.

Ekki er aðeins óvissa um skuldabréfaeigendur því margir stórir lánveitendur Kaupþings hafa selt lánin áfram til annarra fjármálafyrirtækja. Stærstu lánveitendur Kaupþings voru stór evrópsk fjármálafyrirtæki, en stærsti einstaki lánveitandi bankans var Deutsche Bank. Í tilviki Glitnis voru stærstu lánveitendurnir, aðrir en skuldabréfaeigendur, þýsku bankarnir DekaBank, HSH Nordbank breski bankinn Royal Bank of Scotland og japanski bankinn Sumitomo Mitsui. Kröfulýsingarfrestur Glitnis rennur út hinn 26. nóvember næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×