Viðskipti innlent

Gengi krónunnar að ná lægsta gildi ársins

Gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um 0,2% eftir að hafa lækkað í gær um 0,7%. Evran kostar nú 184,2 krónur og dollarinn 124,7 krónur. Lægst fór gengi krónunnar gagnvart evrunni á árinu 27. ágúst síðastliðinn í 184,9 krónur. Gengi krónunnar nú er því afar nálægt lágmarki sínu á árinu.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um krónuna í Morgunkorni sínu. Þar segir að veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri þessa tvo daga hafi verið ágæt. Í gær var hún 4 milljónir evra en til viðmiðunar má nefna að í síðasta mánuði var meðal dagsveltan á þessum markaði 2,1 milljón evra og var það veltumesti mánuðurinn á þessum markaði frá því að hann var myndaður að nýju eftir hrun bankanna í fyrra. Í morgun hefur veltan verið 1 milljón evra.

 

Erfitt er að greina nákvæmar ástæður lækkunarinnar þar sem þær eru háðar afar fáum viðskiptum. Þó má benda á ýmislegt í efnahagslegu umhverfi gjaldeyrismarkaðarins sem gæti verið að hvetja til lækkunar krónunnar þessa daganna og má þar nefna dráttur á lyktum Icesave samkomulagsins, erfiðleikar í stjórnarsamkomulaginu, óvissa á vinnumarkaði og minni afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði í september en mánuðina á undan.

 

Gegni krónunnar á aflandsmarkaði hefur verið að gefa nokkuð eftir síðustu daga eftir að hafa styrkst nokkuð seinnihluta september. Fór evran úr því að vera á 216 krónur niður í að kosta 190 krónur á tímabilinu frá 23. september fram til 30. september síðastliðinn. Síðustu viðskipti áttu sér hins vegar stað með evruna á 200 krónum á þeim markaði og hefur krónan því lækkað nokkuð aftur. Lækkun gengis krónunnar hefur því verið öllu meira á aflandsmarkaði undanfarna daga en innlendum markaði.

 

Seðlabankinn hefur ekkert gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn í þessum mánuði en bankinn hefur dregið umtalsvert úr inngripum sínum undanfarið. Þannig greip bankinn ekki nema tvisvar sinnum inn í markaðinn í síðasta mánuði eftir að hafa gripið sex sinnum inn í markaðinn í ágúst.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×