Erlent

Bush vildi hækka hættustig vegna hryðjuverka kortéri fyrir kosningar

Tom Ridge.
Tom Ridge.

Fyrrverandi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna segir að stjórnvöld hafi reynt að fá hann til þess að auka hættustigið í landinu rétt fyrir kosningar.

Þetta kemur fram í æviminningum Tom Ridge sem gegndi stöðu heimavarnaráðherra í ríkisstjórn George W. Bush þegar hann háði baráttu um forsetaembættið við John Kerry. Á meðal verkefna heimavarnaráðuneytisins er að meta hættuna á hryðjuverkaárás á Bandaríkin á hverjum tíma.

Ridge staðhæfir í bókinni að dómsmálaráðherra Bush stjórnarinnar, John Ascroft og varnarmálaráðherrrann Donald Rumsfeld hafi báðir lagt hart að sér að hækka viðbúnaðarstigið án þess að sérstök ástæða væri til þess að gera slíkt önnur en sú að kosningar nálguðust. Ridge segist hafa bent félögum sínum á að viðbúnaður hefði verið stóraukinn í kringum kosningarnar en að ekki þyrfti að auka hættustigið þar sem engin bein hætta væri ljós.

Að lokum var engin breyting gerð á hættustiginu en Ridge segist gruna að þrýstingur Ascrofts og Rumsfelds hafi verið í þeim tilgangi að auka líkurnar á sigri Bush. Einn af hverjum fimm kjósendum í kosningunum 2004 sögðu að baráttan gegn hryðjuverkum væri mikilvægasta kosningamálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×