Viðskipti innlent

Íslendingar draga verulega úr utanlandsferðum

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fóru tæplega 27 þúsund Íslendingar frá Leifsstöð í júní mánuði síðastliðnum en í sama mánuði fyrir ári síðan nam þessi fjöldi 35 þúsund og hafa brottfarir Íslendinga um Leifsstöð í júní því dregist saman um 23% á milli ára.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að ekki hafi færri ferðast til útlanda í júní mánuði, einum stærsta sumarleyfismánuði Íslendinga frá árinu 2002 en gögn Ferðamálastofu ná ekki lengra aftur í tímann.

Ekki kemur á óvart að metið í brottförum Íslendinga til útlanda í júní mánuði var slegið árið 2007 en þá voru brottfarirnar 55 þúsund talsins. Fyrstu sex mánuði ársins hafa brottfarir Íslendinga um Leifsstöð dregist saman um helming frá sama tímabili fyrra árs. Voru þær 125 þúsund talsins á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við tæplega 250 þúsund á sama tímabili í fyrra.

Engan þarf að undra að áhugi Íslendinga á utanlandsferðum hafi minnkað. Efnahagsþróunin hefur verið þannig. Mun minna fæst nú fyrir krónurnar í útlöndum auk þess sem atvinnuástand er ótryggt og ráðstöfunartekjur hafa minnkað.

Í ljósi þessa er líklegra að Íslendingar ferðist innanlands í sumar eða noti sumarleyfið í að slappa af heima við.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×