Viðskipti innlent

Kreppan klippir fimmtung af kaupmætti landsmanna

Kreppan mun klippa fimmtung af kaupmætti ráðstöfunartekna landsmanna fram til ársins 2011 ef spár ganga eftir. Reiknað er með að kaupmátturinn verði 21% lægri árið 2011 en hann var árið 2007. Mun kaupmátturinn þá verða hinn sami og hann var árið 2003.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um ríflega 80% á tímabilinu frá 1994 til 2007. Var samfeldur vöxtur allan tímann að árinu 2001 undanskildu en í niðursveiflunni þá dróst kaupmátturinn saman um 2,9%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst hins vegar saman um 0,3% á milli áranna 2007 og 2008 samhliða snarpri lækkun á gengi krónunnar og vaxandi verðbólgu samkvæmt upplýsingum sem Hagstofan birti í morgun.

Lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann á milli áranna 2007 og 2008 var upphafið af einni mestu lækkun ráðstöfunartekna sem hér á landi hefur átt sér stað. Samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins sem birt var núna í byrjun október mun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dragast saman um 10,4% í ár og um 11,4% á næsta ári.

Kaupmátturinn mun síðan ná botni í núverandi kreppu á árinu 2011 en þá mun hann vera rétt ríflega það sem hann var á árinu 2003. Kreppan mun þá hafa klippt um fimmtung af kaupmættinum en samkvæmt spánni mun kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vera 21% lægri árið 2011 en hann var árið 2007.

Þrátt fyrir lækkunina mun kaupmáttur ráðstöfunartekna enn vera um 42% hærri 2011 en hann var 1994 og þannig mun ríflega helmingurinn af þeirri 80% kaupmáttaraukningu sem átti sér stað á tímabilinu frá 1994 til 2007 standa eftir þegar botni kreppunnar verður náð samkvæmt spánni. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann mun þá verða tæplega 9% hærri en hann var þegar síðasta uppsveifla í efnahagslífinu hófst árið 2001/2002.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×