Innlent

Hagsmunir almennings þurfa að ríkja - flokkshagsmunir að víkja

Hjörtur Hjartarson talsmaður kjosa.is
Hjörtur Hjartarson talsmaður kjosa.is
Ábyrgðarmenn kjosa.is sem söfnuðu vel á ellefta þúsund undirskriftum þar sem skorað var á forseta Íslands að synja staðfestingar lögum um ríkisábyrgð vegna svonefndra Icesave-samninga segja að almenningur þurfi að fá sjálfstæðan rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Forsetinn staðfesti lögin með undirskrift sinni í morgun.

Í yfirlýsingu frá kjosa.is segir að með því að forseti Íslands hafi formlega tekið á móti umræddri áskorun hafi verið undirstrikað það sem öllum sé í raun ljóst, að 26.grein stjórnarskrárinnar sé í gildi samkvæmt orðanna hljóðan.

„Af ákvörðun Forseta Íslands er jafnframt ljóst að 26. greinin dugar ekki til. Almenningur þarf að fá sjálfstæðan rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um brýnustu hagsmunamál sín, þannig að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geti ekki stýrt samfélaginu í þrot án þess að almenningur fái borið hönd fyrir höfuð sér. Hagsmunir almennings þurfa að ríkja í samfélaginu. Þröngir flokkshagsmunir að víkja. Þeim þúsundum sem lögðu áskoruninni lið eru færðar þakkir fyrir stuðninginn," segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Forsetinn skrifaði undir lög um ríkisábyrgð í morgun

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands skrifaði í dag undir lög um ríkisábyrgð á Icesave samningana. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsetaembættinu. Um tíu þúsund manns höfðu skrifað undir áskorun til forsetans þess efnis að skrifa ekki undir lögin og vísa málinu þannig til þjóðarinnar. Forsetinn rökstyður ákvörðun sína hins vegar með því að vísa til þeirra fyrirvara sem settir voru við ríkisábyrgðina af hálfu Alþingis og þingmenn samþykktu með afgerandi hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×