Viðskipti innlent

Veltir fyrir sér merkingu orðsins „umtalsvert“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans sem birt var samhliða ákvörðun hennar um að lækka stýrivexti bankans í gær segir að nefndin vænti þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar í júní þegar næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar er á dagskrá.

Greining Íslandsbanka veltir því fyrir sér í þessu sambandi hvað orðið „umtalsvert" merki í huga peningastefnunefndarinnar.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að spurningin sem vakni í kjölfar þessarar yfirlýsingar er hvað orðið umtalsvert merkir í huga peningastefnunefndarinnar.

Ljóst er að vaxtalækkunin í gær var umtalsverð í þeim skilningi að aðeins einu sinni áður hefur bankinn lækkað vexti meira í einu stökki en það var um miðjan október á síðastliðnu ári þegar hann lækkaði stýrivexti sína um 3,5 prósentur.

Vaxtalækkunin var einnig umtalsverð í ljósi þess hvernig skref seðlabankar taka almennt en í vaxtalækkunum seðlabanka víða um heim undanfarið hafa vaxtalækkanir um 0,25-0,5 prósentur verið algengastar. Segja má að í því umhverfi sé lækkun um og yfir 1,0 prósentur því umtalsverð.

Vaxtastigið er hins vegar víðast hvar mun lægra en hér og gefur það umtalsverðri lækkun aðra merkingu. Það er samt afar líklegt að peningastefnunefndin hafi verið að hugsa um lækkun á bilinu 2-3 prósentur þegar hún orðaði að umtalsverð lækkun væri framundan þó svo að ýmsir aðilar telji að slík lækkun við núverandi ástand í efnahags- og atvinnulífi landsmanna teljist hófleg og jafnvel lítil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×