Viðskipti innlent

Tryggingarfélögin töpuðu samanlagt 50 milljörðum í fyrra

Innlendu tryggingafélögin (vátryggingafélög í annarri starfsemi en líftryggingastarfsemi) töpuðu samanlagt 49,6 milljarða kr. á síðasta ári. Til samanburðar var samanlagður hagnaður félaganna 20,3 milljarðar kr. árið 2007.

Þetta kemur fram á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að tapið má nær eingöngu rekja til mikils taps af fjárfestingum félaganna en á undanförnum árum hafa fjárfestingar skilað umtalsverðum hagnaði. Á árinu 2007 var hagnaður af fjármálarekstri tæpir 10 milljarðar kr.

Af heildartapinu er Sjóvá með vel yfir helminginn en eins og fram hefur komið í fréttum nam tap þess félags rúmum 30 milljörðum kr. á síðasta ári.

Tap tryggingafélaga af vátryggingarekstri var 3,8 milljarðar kr. á síðasta ári en þar vegur þyngst tap Viðlagatryggingar vegna jarðskjálftans á Suðurlandi. Að undanskilinni Viðlagatryggingu var hagnaður

skaðatryggingafélaga af vátryggingarekstri 856 milljónum kr.



Eignir skaðatryggingafélaganna lækkuðu um 33 milljarða kr. eða 25,1% á milli ára. Þær voru í árslok 2008 um 97,9 milljarðar kr., samanborið við 130,6 milljarða kr. í árslok 2007. Eigið fé félaganna nam 5,5 milljarði kr. og lækkaði á árinu um 88,1%. Töluverðar breytingar urðu einnig á eignasamsetningu félaganna á árinu.

Verðbréf með breytilegum tekjum, þ.e. hlutabréf og hlutabréfatengd verðbréf voru í árslok 2008 5,8 milljarðar kr. samanborið við 16,5 milljarða kr. í árslok 2007. Skuldabréf voru 13,9 milljarðar kr. í árslok 2008 samanborið við 7,4 milljarða kr. í árslok 2007.

Mesta lækkunin var í virði fjárfestinga í samstæðu- og hlutdeildarfélögum sem var 40,2 milljarðar kr. í árslok 2008 en var 59,8 milljarða kr. í árslok 2007 sem svarar til 32,7% lækkunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×