Innlent

Flest liggur fyrir og margt á island.is

Að loknum ríkisstjórnarfundi.  Steingrímur og Jóhanna tjáðu sig um Icesave-skilmála stjórnarandstöðunnar í gær.fréttablaðið/gva
Að loknum ríkisstjórnarfundi. Steingrímur og Jóhanna tjáðu sig um Icesave-skilmála stjórnarandstöðunnar í gær.fréttablaðið/gva

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á ekki von á að neitt komi fram í nýrri meðferð fjárlaganefndar á Icesave-málinu sem breyti því að ráði eða bæti. Flestallt, ef ekki allt, liggi þegar fyrir.

Að kröfu stjórnarandstöðunnar var gert samkomulag í sextán liðum um málsmeðferðina. Kalla á eftir álitsgerðum á lagalegum og efnahagslegum atriðum, auk þess sem ræða á við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir áfram stefnt að því að ljúka lögfestingu málsins fyrir áramót en stjórnin hafi ekki sett sér tiltekna dagsetningu. Reynt sé að tryggja að ekki hljótist skaði af þegar orðnum drætti og er Bretum og Hollendingum haldið upplýstum um gang mála.

Steingrímur telur, líkt og Jóhanna, að málið sé þaulkannað en fjárlaganefnd muni gera allt sem hún geti til að mæta óskum stjórnarandstöðunnar.

„Það er rétt og skylt að mæta öllum málefnalega rökstuddum sjónarmiðum en ekki öðrum,“ segir hann. Mikið sé til af gögnum sem nægi til að svara mörgum af spurningum stjórnarandstöðunnar og raunar séu þau fyrirliggjandi á upplýsingavefnum island.is. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×