Erlent

Fórnuðu fóstureyðingum til að ná fram nýju frumvarpi

Sætur sigur Leiðtogar demókrata í fulltrúadeildinni héldu blaðamannafund eftir að frumvarpið var í höfn.fréttablaðið/AP
Sætur sigur Leiðtogar demókrata í fulltrúadeildinni héldu blaðamannafund eftir að frumvarpið var í höfn.fréttablaðið/AP

Heilbrigðisfrumvarpið sem neðri deild Bandaríkjaþings samþykkti seint á laugar­dag er eitt flóknasta frumvarp sem nokkru sinni hefur komið til afgreiðslu þingsins.

Frumvarpið var samþykkt með 220 atkvæðum gegn 215. Einungis einn repúblikani studdi frumvarpið, en 39 demókratar voru á móti. Öldungadeildin á enn eftir að afgreiða frumvarpið, og þarf sextíu atkvæði af hundrað til þess að stöðva málþóf um frumvarpið.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagðist sannfærður um að öldungadeildin muni samþykkja frumvarpið þegar það komi til kasta hennar.

„Ég hlakka til að undirrita lögin fyrir árslok,“ sagði hann.

Verði frumvarpið að lögum fá 36 milljónir Bandaríkjamanna heilbrigðistryggingar í viðbót við þá, sem fyrir eru tryggðir. Þar með á að vera tryggt að 96 prósent Bandaríkjamanna njóti heilbrigðistrygginga. Aðrir eiga auk þess kost á aðstoð frá ríkinu til að kaupa sér tryggingar á lágu verði. Talið er að nærri fimmtíu milljónir Bandaríkjamanna séu nú án heilbrigðistrygginga.

Ákvæði frumvarpsins taka þó ekki öll gildi fyrr en árið 2013. Demókratar náðu auk þess engan veginn fram öllum þeim breytingum, sem þeir höfðu vonast til.

Meðal annars þurftu þeir að fallast á breytingartillögu, sem bannar öll ríkisútgjöld vegna fóstur­eyðinga, að öðrum kosti hefði frumvarpið ekki náð meirihluta.

Frumvarp öldungadeildarinnar verður ekki samhljóða frumvarpi fulltrúadeildarinnar, þannig að eftir afgreiðslu öldungadeildar þarf nefnd skipuð fulltrúum beggja deilda að samræma frumvörpin og leggja samræmdu útgáfuna síðan fyrir báðar deildirnar til endanlegrar samþykktar.

Þar með yrði einu helsta baráttumáli demókrata undanfarna áratugi náð að mestu, þótt ekki hafi allt náðst fram sem að var stefnt. Breytingarnar á heilbrigðis­tryggingakerfi Bandaríkjanna nú yrðu þær mestu sem gerðar hafa verið síðan 1964.

Repúblikanar voru þó margir hverjir engan veginn kátir með niðurstöðuna: „Heilbrigðiskerfið verður yfirtekið af ríkinu hraðar en hönd á festir, mér býður við þessu,“ sagði Candice Miller og bætti því við að demókratar væru staðráðnir í að samþykkja frumvarp sem yki atvinnuleysi og fjárlagahalla og leiddi til hærri skatta.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×