Innlent

Hjálparstarf Kirkjunnar: Gríðarleg fjölgun beiðna um aðstoð

Vilborg Oddsdóttir.
Vilborg Oddsdóttir. Mynd/Arnþór

Gríðarleg fjölgun hefur orðið á beiðnum um aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar eða 317 prósent miðað við sama tíma í fyrra þegar tekið er mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins. Í tilkynningu kemur fram að umsóknir í ár, janúar til apríl, hafi verið 2.206 en voru 701 í fyrra.

„Í janúar í ár voru beiðnirnar 400 en 159 árið áður (252 prósenta aukning), í febrúar 410 en 139 árið áður (295 prósent), í mars 607 en 220 í fyrra (276 prósent) og í apríl 804 en voru 183 árið áður (439 prósent)," segir ennfremur.

„Það er greinilegt að áhrif kreppunnar eru að koma fram með fullum þunga" segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi. „Aukningin er langmest vegna atvinnuleysis. Í mars í fyrra komu 4 atvinnulausar konur og 1 karl, í ár voru konurnar 27 og karlarnir 136, í apríl í fyrra var engin atvinnulaus kona og 4 karlar, en í ár voru konurnar 46 og karlarnir 213." segir Vilborg.

Fjölgun er í yngstu aldurshópum og meðalaldur umsækjenda hefur lækkað, var 45,4 en er nú 41,8. 2/3 umsækjenda voru áður konur en nú er kynjahlutfallið orðið jafnt.

Þá segir ennfremur að Hjálparstarf kirkjunnar hafi mætt aukinni þörf með því að bæta við félagsráðgjafa í hálft starf. Aðstoðin er fólgin í ráðgjöf, mataraðstoð, aðstoð við að leysa út lyf, fatnaður og sérstaklega er reynt að mæta þörfum barnafjölskyldna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×