Erlent

Travolta berst við fjárkúgara

Óli Tynes skrifar
Travolta fjölskyldan í París. Eins og sjá má leiða bæði hjónin Jett.
Travolta fjölskyldan í París. Eins og sjá má leiða bæði hjónin Jett.

John Travolta og eiginkona hans Kelly Preston eru nú á Bahamaeyjum til að bera vitni í réttarhöldum gegn tveim mönnum sem eru sakaðir um að hafa reynt að kúga fé út úr hjónunum eftir að Jett sonur þeirra lést þar í janúar síðastliðnum.

Flogaveikur

Fjölskyldan ætlaði að eyða áramótunum á Bahamaeyjum. Hinn sextán ára gamli Jett Travolta var bæði einhverfur og flogaveikur.

Flogaköst hans vöruðu frá 45 sekúndum upp í nokkrar mínútur og hann fékk þau á fimm til tíu daga fresti.

Meðvitundarlaus

Fyrir rétti skýrði Travolta frá því að að morgni annars janúar hefðu þau Kelly verið vakin vegna þess að Jett fékk mjög slæmt flogakast. Þau þutu niður til sonarins sem lá á gólfinu í baðherbergi sínu.

Hann var þá meðvitundarlaus og starfsmaður og starfskona hjónanna voru að gera á honum lífgunartilraunir. Travolta tók við af konunni og reyndi að blása lífi í Jett meðan aðstoðarmaðurinn gaf honum hjartahnoð.

Vildi fljúga heim

Þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang ætluðu þeir að flytja Jett á sjúkrahús í Nassau en Travolta vildi flytja hann flugleiðis til Bandaríkjanna. Frá Nassau til Miami á Florida er um tuttugu mínútna flug.

Travolta undirritaði skjal sem firrti sjúkraflutningamennina allri ábyrgð á því að flytja drenginn ekki á sjúkrahús í Nassau.

Vildu 25 milljónir dollara

Svo fór þó að lokum að Jett var fluttur þangað og þar lést hann. Ákæran gengur út á að nokkru síðar hafi einn sjúkraflutningamannanna reynt að kúga fé út úr leikaranum. Ákærður með honum er fyrrverandi þingmaður á Bahama.

Þeir eru sagðir hafa krafist tuttugu og fimm milljóna dollara fyrir að gera ekki opinbert skjalið sem Travolta undirritaði vegna flutninganna.

Löggan í málið

Travolta var alveg sama þótt skjalið væri birt en haft var samband við lögregluna vegna tilraunar til fjárkúgunar. Hún mun hafa hlerað samningafund sem Travolta tók þó ekki sjálfur þátt í. Ákæruvaldi segir að sú upptaka sanni ótvírætt sekt hinna ákærðu.

Búist er við að réttarhöldin taki margar vikur.

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×