Innlent

Fékk kærar kveðjur frá 1946

Á Ísafirði.
Á Ísafirði.

Hávarði Bernharðssyni, húsasmiði sem vinnur að framkvæmdum við gagnfræðaskólann á Ísafirði, brá heldur en ekki í brún í gær þegar hann fann flöskuskeyti undir gólffjölum hússins. Skeytið er dagsett 2. febrúar árið 1946 og er undirritað af smiðum sem greinilega unnu að gólfinu á þeim tíma.

Frá þessu segir fréttavefurinn Bæjarins besta á Ísafirði.

Hávarður segir í samtali við BB að oft hafi menn sett peninga í hurðargafla og annað slíkt við framkvæmdir, en aldrei hafi hann áður heyrt um flöskuskeyti.

Í skeytinu stendur:

„Góðir samlandar og frændur.

Við sem unnum að þessu gólfi færum ykkur kærar kveðjur. Okkur er ráðgáta hvenær þessar kveðjur berast ykkur.

Við biðjum að heilsa.

Ágúst Guðmundsson

yfirsmiður

Felix Tryggvason

trésmiður."

Frétt Bæjarins besta um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×