Erlent

Stjórnin í Pakistan spyrnir við fótum

Vígbúnaður gegn talibönum Pakistanskir hermenn á leið til vígstöðva í Buner-héraði.fréttablaðið/AP
Vígbúnaður gegn talibönum Pakistanskir hermenn á leið til vígstöðva í Buner-héraði.fréttablaðið/AP
Pakistansher hefur í vikunni reynt að hrekja sveitir talibana frá Buner-héraði, sem er í aðeins hundrað kílómetra fjarlægð frá Islamabad, höfuðborg landsins. Í síðustu viku lagði um 500 manna lið talibana undir sig helstu bæi í héraðinu. Stjórnvöld brugðust hart við og sendu herinn á vettvang. Asif Ali Zardari forseti hvetur þjóðina til að standa einhuga að baki aðgerðum gegn talibönum. Bandaríkjastjórn gagnrýndi Zardari harðlega þegar hann ákvað að semja við talibana um að íslömsk sjaría-lög verði tekin upp í Swat-dalnum og Malakand-héraði, en í staðinn lofuðu talibanar að hætta uppreisn sinni gegn stjórninni, sem kostað hefur fjölmörg mannslíf undanfarin tvö ár. Í ræðu á miðvikudag sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti að Pakistanar væru nú að átta sig á því að áherslan á Indland sem höfuðóvin Pakistans hafi kannski verið misráðin. Nú sé að koma í ljós að hættan innan frá sé mun meiri. Pakistanski herinn sé farinn að líta mun alvarlegri augum á hættuna sem stafar af herskáum öfgamönnum. „Ég hef miklar áhyggjur af ástandinu í Pakistan, ekki vegna þess að ég haldi að árás sé yfirvofandi og talibanarnir muni taka völdin,“ sagði Obama, „heldur vegna þess að borgaralega ríkisstjórnin þar er mjög brothætt sem stendur.“ Talibanar njóta mikils stuðnings meðal pastú-þjóðflokksins, sem býr beggja megin landamæranna og hefur í gegnum aldirnar iðulega neitað að lúta ríkisvaldinu, bæði í Afganistan og Pakistan. Þessi víðtæki stuðningur meðal pastúa hefur gert talibönum kleift að hreiðra um sig Pakistans­megin, og skipuleggja þaðan bæði fjáröflun, vígvæðingu og árásir yfir landamærin á erlenda herliðið í Afganistan. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×