Viðskipti innlent

Tilfærslur með hlutabréf VÍS gætu bent til sölu

Sigríður Mogensen skrifar

Tilfærslur með hlutabréf í tryggingarfélaginu VÍS gætu bent til þess að eigendurnir séu að undirbúa sölu.

Fréttastofa hefur undir höndum samþykkt Vátryggingafélags Íslands frá 3.apríl 2009. Þar kemur fram að nýr hlutabréfaflokkur hafi verið stofnaður, B - flokkur, utan um nýtt hlutafé að fjárhæð 100 milljónir króna. Hlutafé VÍS skiptist því nú í tvo flokka, A-hluti og B-hluti. A hlutir eru að nafnvirði um tveir og hálfur milljarður og B-hlutir að nafnvirði 100 milljónir króna. VÍS er dótturfélag Exista, sem er að stórum hluta í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, kenndir við Bakkavör.

Upplýsingafullrúi Exista staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að Exista væri eigandi hins nýja hlutafjár. Því er um að ræða 100 milljónir króna sem flytjast frá Exista til dótturfélagsins VÍS. Að öðru leyti vildi félagið ekki tjá sig um málið.

Það sem vekur athygli við þetta er að hluthafar í B flokki fara samkvæmt samþykktinni með 75% atkvæðismagn í félaginu - með öðrum orðum ráða þeir yfir þremur fjórðu í félaginu.

VÍS er því áfram alfarið í eigu Exista, sem á báða hlutabréfaflokkana. Vegna þeirrar staðreyndar er erfitt að átta sig á tilgangnum með nýju samþykktinni. Hvers vegna að stofna nýjan hlutabréfaflokk um 100 milljónirnar sem koma til viðbótar inn í félagið ef eignarhaldið breytist ekki?

Til að leitast við svara þessu hafði fréttastofa samband við nokkra lögfræðinga í dag sem sérhæfa sig í félagarétti. Enginn þeirra vildi tjá sig um málið, enda vildu þeir ekki vera með getgátur. Hins vegar fengust þau svör að ein helsta ástæða þess að félög stofna nýjan hlutabréfaflokk hjá dótturfélögum sínum sé sú að í bígerð sé að selja félagið eða breytingar séu framundan á eignarhaldinu. Exista stendur nú í viðræðum við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu og munu þær vera á viðkvæmu stigi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×