Lífið

Sýning á myndum Kertész

André Kertész.
André Kertész.

Í dag verður opnuð sýning á Ljósmyndasafni Reykjavíkur á verkum eins mesta ljósmyndara allra tíma, André Kertész, og nefnist hún Frakkland - landið mitt (Ma France). Sýningin kemur frá hinu virta safni Jeu de Paume í París. André Kertész var Ungverji.

Hann kom til Parísar árið 1925, sem á þeim tíma var borg ljóðskálda og listmálara. Á næstu árum myndaði hann París og mannfólkið þar og skóp hina klassísku og sílifandi mynd af borginni sem háborg áranna milli stríða. Hinar klassísku ljósmyndir hans af Eiffel-turninum, vinnustofu Mondrians og hin einstaka ljósmynd af dansmey í skopstælingum voru upphaf stíls sem meðal annars starfsfélagar hans og samtímamenn, Brassaï og Cartier-Bresson, tóku upp.

„Allt sem við höfum gert gerði Kertész á undan okkur," sagði Cartier-Bresson eitt sinn um kollega sinn en hinn lýríski stíll Kertész varð til þess að hann var stundum kallaður „ljóðskáldið með myndavélina".

André Kertész fæddist í Búdapest árið 1894. Hann tók sína fyrstu ljósmynd árið 1912 og tók fjölmargar myndir af ættingjum sínum og vinum sem og sveitum Ungverjalands. Eftir stríðið settist hann að í París og komst í Montparnasse-hverfinu í kynni við ungverska listamenn og margt af þekktasta fólkinu í bókmennta- og listheiminum (Mondrian, Eisenstein, Chagall, Calder, Zadkine, Tzara, Colette). Hann var einn af fyrstu ljósmyndurunum sem notuðu 35 mm myndavél af Leica-gerð og nýtti sér hið myndræna frelsi sem þessi merka myndavélartegund bauð upp á. Ljósmyndir hans voru víða birtar í frönskum fjölmiðlum (Vu, Art et Médecine) og í Þýskalandi (Uhu, Frankfurter Illustrierte).

Árið 1933 gerði hann hina frægu myndröð sína Afmyndanir (Distortions). Árið 1936 þegar hann var á hátindi síns listræna ferils ákvað hann að flytja til New York. Frá árinu 1949 starfaði André Kertész fyrir ritstjóra Condé Nast-útgáfufyrirtækisins og voru myndir hans birtar reglulega í tímaritinu House and Garden. Snemma á sjötta áratugnum fór hann að taka myndir í lit. Hann tók myndir af hverfinu sem hann bjó í og færði sig smám saman af strætunum og tók að ljósmynda úr glugganum á íbúðinni sinni sem sneri að Washington Square. Árið 1963 fundust í Suður-Frakklandi filmur hans frá þeim tíma er hann bjó í Ungverjalandi og Frakklandi. Hann nýtur mikillar virðingar um allan heim fyrir hæfileika sína, sínar fjölmörgu sýningar sem og bækur sínar með röðum mynda.pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.