Viðskipti innlent

Högnuðust ekki á gengislækkun krónunnar

Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið hefur rannsakað hvort ákveðnir aðilar hafi með ólögmætum hætti hagnast á gengislækkun krónunnar í upphafi síðasta árs. Niðurstaðan leiddi í ljós að svo var ekki.

Í mars á síðasta ári var niðursveiflu farið að vera vart í efnahagslífi landsins. Stýrivextir Seðlabankans voru komnir í fimmtán prósent, hærri en í öllum hinum vestræna heimi, skuldatryggingarálag hafði snarhækkað og gengi krónunnar tók snarpa dýfu. Krónan veiktist um tæp tíu prósent á rúmum hálfum mánuði

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði þá að verið væri að kanna vísbendingar um hvort ábyrgir aðilar hefðu vísvitandi reynt að fella gengi krónunnar.

„Lyktar óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Þeim er ekki að takast það en til álita hlýtur að koma að gera alþjóðlega opinbera rannsókn á slíku tilræði við heilbrigð fjármálakerfi," sagði Davíð.

Seðlabankinn sendi upplýsingar á Fjármálaeftirlitið til að það gæti rannsakað hvort að einhverjir aðilar hefðu vísvitandi verið að reyna að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Fréttastofa leitaði eftir svörum frá Fjármálaeftirlitinu um hvort að rannsókninni væri lokið og hver niðurstaðan hefði. Í svari sem barst frá eftirlitinu segir að það hafi kannað hvort að ákveðnir aðilar hafi mánuðina fyrir vorið 2008 stuðlað að og reynt að hagnast á gengislækkun krónunnar með ólögmætum hætti. Við athugun hafi ekki komið fram vísbendingar um slíkt.

Fjármálaeftirlitið muni hins vegar rannsaka frekar, eða gera viðeigandi yfirvöldum viðvart, komi fram upplýsingar í yfirstandandi athugunum þess, sem benda til mögulegra lögbrota.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×