Innlent

Íslendingar trúðu á endalausa uppsveiflu - en þeir trúa líka á álfa

Valur Grettisson skrifar

Ef Íslendingar eru nógu ruglaðir til þess að koma sér í efnahagslegar hamfarir, þá gætu þeir verið nógu klikkaðir til þess að vinna sig aftur úr þeim.

Svona kynnir fréttakonan Liz Hayes Ísland til sögunnar í áströlsku útgáfunni af 60 mínútum. Þátturinn, sem er um 13 mínútur að lengd, fjallar um stöðuna á Íslandi eftir bankahrunið. Þar er meðal annars rætt við sjónvarpskonuna Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur sem og Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra. Þá er einnig rætt við konu sem sér álfa og sjómann sem varð gjaldeyrismiðlari og svo aftur sjómaður.

Þjóðaríþrótt Íslands

Þar segir Liz að Ísland sé lítil skrýtin eyja sem ætlaði sér of mikla hluti. Hinu risastóra bankakerfi var haldið uppi af þrjúhundruð þúsund manna þjóð. Til þess að Ástralir skilji samanburðinn líkir Liz Íslandi við smábæinn Wollagong í Ástralíu.

„Hvað voru þeir að hugsa?" spyr Liz steinhissa á framferði Íslendinga.

Þegar hún ræðir við Steingrím J. Sigfússon líkir hann bankahruninu við náttúruhamfarir. Hann segir að kreppan sem skall á með svo miklum ofsa hér á Íslandi jafngildi eldgosi eða jarðskjálfta. Munurinn sé hinsvegar sá að þessar náttúruhamfarir voru af mannavöldum.

Síðan hneykslast Steingrímur á Ólafi Ólafssyni þegar hann hélt upp á afmælið sitt hér um árið. Steingrímur útskýrir fyrir Liz að Ólafur hafi fengið Elton John til þess að syngja fyrir sig, - og það illa að auki.

Endalaust af vinnu

Ragnhildur Steinunn er svo kynnt til sögunnar sem fegurðardrottning og leikkona. Því næst er sérkennilegt myndskeið af henni sýnt þar sem hún er að leika í Astrópíu.

Ragnhildur útskýrir fyrir Liz að ástandið á Íslandi hafi verið sérkennilegt fyrir hrun. Hún nefnir sem dæmi að næga vinnu hafi verið að hafa og fólk hafi ítrekað skipt um þær.

Því næst sýnir Liz tóma háhýsið í Borgartúninu undir dramatísku stefi. Ragnhildur segir henni að það hafi verið eins og svart ský á himni þegar hrunið varð að veruleika. Fólk hafi óttast um peningana sína.

Trúðum á endalausan uppgang og álfa

Og Liz segir að Íslendingar hafi verið svo barnalegir að halda að þessi uppgangur myndi halda endalaust áfram. „En á móti kemur, þeir trúa líka á álfa," segir Liz og ræðir við Þórunni Kristínu Emilsdóttur.

Þórunn sýnir fréttakonunni álfa á Hamri í Hafnarfirði. Sjónvarpsfréttakonan viðurkennir svo fyrir sjáandanum að hún sjái alls ekkert. Þá sýnir sjándinn henni brúðu af því sem líkist álfi.

Eigum heima í sjómennsku



Að lokum segir Liz að Íslendingar hafi leitað aftur til upprunans, sjómennskunnar - „þar sem þeir áttu að halda sig frá upphafi," segir hún að endingu.

Myndbandið má sjá hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×