Innlent

Telur samning um HS gegn anda laga

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur sent bæjarstjóra og bæjarstjórn Reykjanesbæjar bréf þar sem hún lýsir þeirri skoðun sinni að samningur bæjarfélagsins við HS orku, um afnot af orkuauðlindum í eigu bæjarins, gangi lengra en gert er ráð fyrir í lögum um afnotarétt á jarðhita og vatnsréttindum. Ráðherra telur að leigutíminn, 65 ár, sé of langur.

Katrín segir að í lögunum sé vissulega rætt um að hámarkstími afnotaréttar sé 65 ár. Þar sé hins vegar gert ráð fyrir að þegar helmingur leigutímans sé liðinn fari fram viðræður á milli stjórnvalda og handhafa réttindanna. Niðurstaða þeirra viðræðna gæti verið framlenging samnings, en allt eins uppsögn. Þess vegna sé óeðlilegt að gefa sér þær forsendur í upphafi að leigutíminn verði 65 ár.

Í samningnum á milli sveitarfélagsins og HS orku er sú forsenda gefin að „HS orka hf. eigi rétt á framlengingu réttarins eftir lok þessa samnings í samræmi við gildandi lög".

„Ég tel að þarna gangi menn of langt og þetta fari gegn anda laganna. Ég óskaði eftir viðbrögðum sveitarfélagsins. Menn ganga of langt með því að gera ráð fyrir að sjálfkrafa verði af framlengingu," segir Katrín.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að samningurinn sé fyllilega í samræmi við löggjöf, enda hafi menn beðið með samningagerð þar til lögin voru tilbúin. Hann segir sjálfsagt að skoða málin í samráði við ráðuneytið, að því gefnu að bæjarfélagið fari ekki halloka í því.

Forsætisráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Hún átti að skila af sér 1. júní, en hefur fengið frest til áramóta. Ráðherra telur að endurskoða eigi samninginn við HS orku í ljósi niðurstöðu þeirrar nefndar. Sjálf telur hún 65 ár vera of langan tíma og stytta ætti hámarks nýtingartímann.

- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×