Viðskipti innlent

Fengu ofurlán til þess að rétta stöðu Icelandic Group

Landsbankinn lánaði hlutafélaginu IG ehf. 26 milljarða króna í formi kúluláns skömmu eftir bankahrun til þess að kaupa hluti í Icelandic Group. Veðin eru bréfin í félaginu sjálfu. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Þar kom fram að félagið ELL 187 var stofnað snemma í október 2008 af lögmannsstofunni Logos. Hlutafé í fyrirtækinu var hálf milljón en tvö útgerðarfyrirtæki, Brim og Hraðfrystistöð Gunnvarar á Ísafirði, keyptu svo félagið á fimm hundruð þúsund krónur og í byrjun nóvember varð ELL 187 að IG ehf. Í stjórn settust Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Friðrik Jóhannsson þá- og núverandi stjórnarformaður Icelandic group og Einar Valur Kristjánsson. Guðmundur og Friðrik höfðu báðir setið í stjórn Icelandic group fyrir hrun.

Í frétt Kastljóss sagði að samkvæmt ársreikningi IG keypti hið nýstofnaða félag 97,9% hlut í útflutningsfélaginu Icelandic Group stuttu eftir stofnun þess, rétt eftir hrun bankanna. Um leið var hlutafé fyrri eigenda fært niður á móti tapi félagsins.

Hið nýstofnaða félag sem tók yfir fyrirtækið gerði þetta með hárri lántöku sem alls nam 26 milljörðum króna samkvæmt Kastljósi. Lánveitandinn var Landsbankinn, sem þá var kominn í eigu ríkisins. Þannig var skuldastaða Icelandic Group lagfærð en tugmilljarða skuldir fluttar yfir í félagið IG ehf.

Samkvæmt ársreikningi er þetta kúlulán til þriggja ára og kemur því allt til greiðslu að loknum samningstímanum. Veðið fyrir láninu er svo í bréfunum sjálfum í Icelandic Group. Áhætta útgerðarfélaganna tveggja er því í raun og veru engin. Það var Landsbankinn sem leiddi þessar breytingar, en bankinn var þá kominn í hendur ríkisins eftir gjaldþrot hans.

Þá sagði í Kastljósi að Friðrik og Guðmundur komu í stjórn fyrir hrun í umboði meirihlutaeigandans Grettis, félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar. Finnbogi Baldvinsson er nú og hefur verið forstjóri fyrirtækisins frá því í febrúar 2008 en var áður yfir Evrópudeild þess.

Landsbankinn átti stærstu hagsmunina í félaginu og lánuðu því félaginu 26 milljarða. Í yfirlýsingu sem lesin var upp í Kastljósinu kom fram að lánið var veitt til þess að tryggja íslenskt eignarhald á félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×