Innlent

Dregur úr notkun sýklalyfja hérlendis

Haraldur Briem
Haraldur Briem Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Dregið hefur úr notkun sýklalyfja hér á landi fyrstu níu mánuði ársins segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Hann segir skýringu ekki liggja fyrir. Hugsanlega spari fólk við sig sýklalyf þegar fjárhagurinn versnar, líkt og gerst hafi undanfarið.

Þetta eru ágæt tíðindi að mati sóttvarnalæknis en ofnotkun sýklalyfja er talin vandamál meðal annars vegna hættunnar sem ofnotkunin veldur á útbreiðslu fjölónæmra baktería. Það eru bakteríur sem eru ónæmar fyrir mörgum af algengustu sýklalyfjum. Þær eru mikið vandamál víða í Evrópu og er dagurinn í dag helgaður baráttu gegn ofnotkun sýklalyfja. Þetta er í annað sinn sem 18. nóvember er lagður í það.

Haraldur segir að fundað hafi verið með læknum og fjallað um vandamálið og áfram verði fundað um notkun sýklalyfja en Ísland hefur verið meðal þeirra Evrópulanda þar sem mest er notað af sýklalyfjum.

Tölur frá Lyfjastofnun hafi leitt í ljós að samdrátturinn nemi um níu prósentum á þessu ári. Samdráttur er í notkun þeirra lyfja sem Landlæknisembættið hafi haft áhyggjur af, sem eru meðal annars azitrómýcín sem gjarnan er notað við eyrnabólgu barna og doxýcýklín sem notað er við unglingabólum. Þessi lyf tengjast fjölónæmum bakteríum sem látið hafa á sér kræla utan spítala.

Hér á landi hefur tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu fjölónæmra baktería á spítölum þó af og til hafi verið lagðir inn sjúklingar sem sýkst hafa erlendis. Sums staðar í Evrópu er vandamálið mikið og samkvæmt Evrópsku sóttvarnastofnuninni er metið sem svo að um 400 þúsund Evrópubúar sýkist af fjölónæmum bakteríum ár hvert, um 25 þúsund dauðsföll megi rekja til þeirra árlega og sjúklingar dvelji 2,5 milljón daga á ári á spítala vegna þeirra í Evrópu. Kostnaðurinn vegna þessa sé um 900 milljónir evra á ári hverju, andvirði um 166 milljarða íslenskra króna.

Að sögn Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýklafræðideild Landspítalans, standa Íslendingar hér vel að vígi rétt eins og nágrannarnir á Norðurlöndum og Hollendingar. Í Suður-Evrópu sé vandamálið hins vegar mikið svo dæmi séu tekin. Karl bendir hins vegar á að fjölónæmar sýkingar í öndunarfærum, einkum miðeyrnabólga, séu meira vandamál hér en víða í nágrannalöndum.

sigridur@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×