Erlent

Verkamannaflokkurinn sakaður um að mergsjúga ökumenn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Tim Graham/Getty Images

Ríkissjóður Bretlands fitnar um ein 250.000 pund á dag, jafnvirði rúmlega 47 milljóna króna, eingöngu af sektum sem lagðar eru á ökumenn landsins fyrir að aka yfir löglegum hámarkshraða.

David Ruffley, skuggaráðherra Íhaldsflokksins í löggæslumálum, segir tvær hraðasektir hafa litið dagsins ljós hverja mínútu í heilan áratug. Hann sakar Verkamannaflokkinn um að hafa sett sér það markmið að hala að minnsta kosti 88 milljónir punda inn í ríkiskassann á ári með hraðasektum og bendir á fjölgun hraðamyndavéla við breska vegi undanfarið.

Ruffley segir Verkamannaflokkinn líta á ökumenn sem einhvers konar mjólkurkýr fyrir ríkið og hjá sumum lögregluembættum hafi fjöldi sekta þrettánfaldast. Ekki vill Ruffley þó meina að allt það fé sem þarna verður til skili sér til umferðarmála. Það sé eitt að fjölga hraðamyndavélum en á meðan geri lögregla lítið sem ekkert í því að reyna að stemma stigu við ótryggðum ökutækjum í umferðinni en nóg sé af þeim.

Von er á sex tegundum af nýjum hraðamyndavélum við breska vegi og eru Bretar þó þegar nærri heimsmetinu í notkun eftirlitsmyndavéla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×