Viðskipti innlent

Aðildarviðræðurnar við ESB gætu tekið 18 mánuði

Miðað við reynslu annarra þjóða má reikna með að aðildarviðræður Íslands við ESB geti tekið allt að 18 mánuði. Um er að ræða ferli sem er í mjög föstum skorðum. Hinsvegar hefur komið fram vilji hjá ESB að stytta ferlið töluvert samkvæmt fréttum í morgun.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samningaferli ESB fer alltaf eftir ákveðnu ferli. Samningaferlinu er skipt upp í 35 samningskafla eftir innihaldi. Fyrstu 34 kaflarnir fjalla um lagasafn ESB eftir köflum og síðasti samningskaflinn tekur yfir önnur mál og er sá kafli oftast nýttur til að hnýta niður lausa enda í samningaviðræðum.

Líklegt er að samningaviðræður vegna fyrstu 20 kaflanna muni ganga fljótt fyrir sig enda eru þeir að mestu leyti uppfylltir með EES samningnum. Hinir kaflarnir muni líklega taka lengri tíma en búast má við að samningaviðræðurnar í það heila gætu tekið 9-18 mánuði. Það mat er byggt á reynslu annarra þjóða og yfirlýsingum helstu forsvarsmanna ESB sem hafa tjáð sig um mögulega aðild Íslands en þar er Olli Rehn sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn ESB fremstur í flokki.

Stóra spurningin varðandi aðild Íslands að ESB er að mati margra hvenær hægt væri að taka upp evruna hér á landi. Að öllu jöfnu geta aðildarríki ESB tekið upp evruna þegar þau uppfylla Maastricht skilyrðin sem eiga að tryggja fjármálastöðugleika og að verðbólguhorfum á evrusvæðinu stafi ekki ógn af fjölgun aðildarríkja.

Eins og staða og horfur eru í íslenska hagkerfinu um þessar mundir er ljóst að nokkur tími gæti liðið þar til við myndum uppfylla Maastricht skilyrðin en það eru fyrst og fremst skilyrðin varðandi halla á rekstri hins opinbera og heildarskuldir ríkisins sem myndu reynast okkur Þrándur í götu. Hinsvegar skal hafa í huga að heimilt er að gefa ákveðið svigrúm varðandi skilyrðin ef aðstæður eru sérstakar og sýnt þyki að þau verði uppfyllt fljótlega.

Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp sem gætu gert það að verkum að flýta upptöku evru eða í það minnsta leysa það fyrirkomulag gengismála sem nú er við lýði af hólmi þar til evran væri tekinn upp að fullu. Ísland gæti til dæmis reynt að semja um að fara í ERMII myntsamstarfið sem fyrst en þá væri miðgengi krónunnar gagnvart evru fest og krónunni leyft að víkja 15% til hvorrar áttar frá miðgildinu. Ísland gæti þá mögulega verið í ERMII lengur en þau tvö ár sem gerð eru skilyrði um samkvæmt Maastricht skilyrðunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×