Erlent

Umdeildur McDonald's-staður væntanlegur í Louvre

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Skiptar skoðanir eru um nýjan veitingastað McDonald's sem til stendur að opna í Louvre-listasafninu í París.

Helstu menningarvitar Frakklands reita nú hár sitt í bræði en Frakkar líta á matargerð og listir sem tvö helstu menningareinkenni þjóðarinnar. Stjórnendur hins heimþekkta hamborgarastaðar láta slíkt hins vegar sem vind um eyrun þjóta og hyggjast fagna 30 ára afmæli McDonald's í Frakklandi með því að opna 1.142. staðinn þar í landi í Louvre-listasafninu, höfuðvígi hinna fínþráðóttari vefja franskrar menningar.

Listasögufræðingur sem starfar á safninu segir þetta vera kornið sem fylli mælinn. Hann vill reyndar ekki láta nafns síns getið í viðtalið við Telegraph en segir að þarna sé komið skínandi dæmi um gegndarlausa neysluhyggju auk þess sem lyktin á safninu verði óþolandi þegar farið verði að steikja þar hamborgara og franskar daglangt. Nógu slæmt hafi verið þegar Starbucks fékk að opna kaffihús á safninu í fyrra.

McDonald's-staðurinn nýi opnar í nóvember og reyndar um leið kaffihúsið McCafé svo það ætti að verða auðvelt um vik að fá sér tíu dropa á safninu. Stjórnendur safnsins taka gagnrýninni með ró og segja í tilkynningu, sem þeir sendu frá sér, að sjálfsagt sé að bjóða safngestum upp á eins ríkulegt og fjölbreytt úrval veitingastaða og mögulegt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×