Innlent

Töluverð hreyfing á vinnumarkaði

Nokkur hreyfing virðist nú vera á vinnumarkaði og atvinnuleysið stendur að mestu leyti í stað.

Töluverð hreyfing er á vinnuaflinu og er svipað streymi inn og út af atvinnuleysisskrá. Það þýðir að nokkuð sé um að fólk sé að fá vinnu og segir Karl Sigurðsson, sviðsstjóri vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar, að meiri hreyfing sé nú á markaðnum. Samt sem áður sé nokkuð um nýskráningar á atvinnuleysisskrá, en þeim hafi fækkað mikið frá því sem var í janúar og febrúar.

Verið er að fara yfir allar skráningar og eru nú um og yfir sautján þúsund og sjö hundruð manns skráðir atvinnulausir eða í hlutastarfi á móti bótum. Þessi tala hefur ekki breyst mikið síðustu vikur. Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í apríl. Fleiri hópar hafa þó misst vinnu sína vegna þess að fyrirtæki hafa farið í þrot eða lagt niður starfsemi, en almennt er ekki tilkynnt um slíkt til stofnunarinnar.

Töluvert virðist vera um að fólk flytji af landi brott eða íhugi að flytjast búferlum. Þannig hefur Vinnumálastofnun gefið út talsverðan fjölda vottorða, sem gefur fólki leyfi til að leita að vinnu erlendis á atvinnuleysisbótum frá Íslandi eða staðfestir að fólk hafi verið á vinnumarkaði hérlendis og eigi því rétt á bótum erlendis. Slík vottorð eru yfirleitt veitt útlendingum, en þó eru dæmi um að Íslendingar hafi útvegað sér það.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar af fyrsta ársfjórðungi ársins fluttu fleiri frá landinu en til þess - voru brottfluttir 711 umfram aðflutta. Gera má ráð fyrir að inni í þessari tölu séu margir útlendir starfskraftar sem snúið hafa heim vegna efnahagslægðarinnar. Til nokkurs samanburðar má geta þess að allt árið í fyrra komu fleiri til landsins en fóru frá því - voru aðfluttir umfram brottflutta rúmlega ellefu hundruð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×