Viðskipti innlent

Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja margfalt lakari en erlendra

Samanburður á arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og orkufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum bendir til að hún sé margfalt lakari hér á landi. Á því tímabili sem skoðað var, árin 2000-2006/8, var arðsemi af fjármagni sem bundið er í orkuvinnslu og dreifingu eftir skatta í námunda við 10,8% í Bandaríkjunum og um 7% í Evrópu en einungis um 2,4% á Íslandi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér. Þar segir einnig að samanburður á arðsemi orkufyrirtækja og arðsemi í annarri atvinnustarfsemi hérlendis gefur til kynna að arðsemi af fjármagni sem bundið var í orkuvinnslu og dreifingu 1988- 2006 hafi að jafnaði verið um 1,7%, samanborið við 3,8% í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.

Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar, en á Íslandi gera þau það þriðjungi verr.

Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.

Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar gefa til kynna.

Fyrirferð stóriðju jókst mjög í hagkerfinu fram á árið 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár.

Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júní 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.



Á undanförnum árum hafa fjárfestingar í orkuverum til að selja orku til stóriðjuvera farið vaxandi hérlendis. Mest af þessum framkvæmdum hefur verið á vegum orkufyrirtækja í opinberri eigu. Mjög takmarkaðar athuganir á þjóðhagslegri hagkvæmni þessarar þróunar hafa verið gerðar. Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) hefur oftsinnis kallað eftir því í skýrslum sínum að gerð verði athugun á þessu, nú síðast í febrúar 2008.

Í apríl 2009 samdi Fjármálaráðuneytið við Sjónarrönd ehf. um að framkvæma mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið.

Verkefnið greinist í tvo meginverkþætti: Annars vegar skal leggja mat á arðsemi orkusölu til stóriðju; hins vegar skal meta þjóðhagsleg áhrif af erlendum fjárfestingum í stóriðju. Samkvæmt verkáætlun skyldi skila áfangaskýrslu í maí á þessu ári og endanlegum niðurstöðum síðar á árinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×