Skoðun

Frumskógar- lögmálinu hafnað

Árið 1906 sendi bandaríski sósíalistinn Upton Sinclair frá sér skáldsöguna Frumskóginn (e. The Jungle). Í henni segir af ömurlegum lífsaðstæðum innflytjenda úr verkamannastétt í kjötiðnaðarverksmiðjum Chicago. Þótt verkið sé í dag flestum gleymt voru áhrif þess á sínum tíma geysimikil. Hér á landi urðu til dæmis þeir Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness fyrir miklum áhrifum af Frumskóginum, eins og glöggt má sjá í Bréfi til Láru og Sjálfstæðu fólki.

Undir lok bókarinnar lætur Sinclair eina aukapersónuna útskýra fyrirkomulagið í hinu fyrirheitna ríki sósíalismans. Þar mun hver iðja það sem honum sýnist og fá fyrir mannsæmandi laun. Fullt launajafnrétti kæmi þó ekki til álita. Hæstu launin hlytu nefnilega þeir að fá sem ynnu erfiðustu, einhæfustu og leiðinlegustu verkamannavinnuna. Hinir, sem veldu sér til dæmis það hlutskipti að stjórna samfélaginu eða semja ljóð og skáldsögur, fengju góða umbun með því að fá að vinna gefandi starf og þyrftu því minna í launaumslagið.

Fæstir jafnaðarmenn hafa þorað að ganga jafn langt og Upton Sinclair í hugmyndum sínum um hvernig skipta skuli auðæfum í samfélaginu. Engu síður hefur það lengi fylgt vinstrimönnum að telja það æskilegt að leiðtogar samfélagsins deili sem mest kjörum með almenningi. Þannig þótti það löngum sjálfsagt að ráðherrar breska Verkamannaflokksins sendu börn sín í ríkisskóla í stað einkaskóla. Og á Norðurlöndum stærðu jafnaðarmenn sig af því ef leiðtogar þeirra ferðuðust með almenningsfarartækjum og bjuggu látlaust.

Í ljósi þessarar hefðar skýtur skökku við sú áhersla sem sitjandi ríkisstjórn hefur lagt á að engir starfsmenn ríkisins skuli vera á hærri launum en forsætisráðherra. Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir þessari stefnu önnur en sú hugmynd að sá sem sitji „á toppnum" eigi að fá mest. Hér er í raun á ferðinni sama hugmyndafræði og átti svo stóran þátt í efnahagshruninu á síðasta ári. Ofurlaun og fráleitar bónusgreiðslur voru einmitt réttlættar með því hversu gríðarlega ábyrgðarmikil stjórnendastörfin væru. Ein birtingarmynd þessarar firru var þegar bankastjórar Seðlabankans útskýrðu um árið að þeir hefðu hreinlega neyðst til þess að þiggja kauphækkun til þess að unnt væri að greiða undirmönnum þeirra samkeppnisfær laun!

Vissulega er það rétt að laun sumra starfsmanna ríkisins eru of há. Þegar valið stendur á milli þess að þurfa að segja upp fólki á lægstu töxtum eða lækka greiðslurnar til hálaunastarfsmanna ríkisins er ekki erfitt að taka ákvörðun. En þá ætti ríkisstjórnin líka að nálgast málið úr þeirri áttinni. Hæstu laun má lækka með vísun til kjara og starfsöryggis þeirra lægst launuðu.

Að leggja áherslu á að forsætisráðherra sé leiðtoginn og eigi því að fá hæstu launin er hins vegar málflutningur sem er ekki vinstrimönnum bjóðandi. Það ætti þvert á móti að vera hugsjón íslenskra sósíaldemókrata og sósíalista að skapa samfélag þar sem forsætisráðherrann fær ekki mest í sinn hlut.




Skoðun

Sjá meira


×